Land­spítalinn hefur hafið rann­sókn á því sem gerðist þegar maður lést eftir að hafa verið sendur heim af bráða­mótt­tökunni. Þetta kemur fram í kvöld­fréttum RÚV en þar kemur fram að land­læknir krefjist meðal annars skýringa á því hvers vegna Land­spítalinn til­kynnti ekki um at­vikið.

Til­efnið eru fréttir af því að Páll Heimir Páls­son, krabba­meins­sjúkur maður með blóð­tappa, var sendur heim af bráða­mótt­töku spítalans í nóvember. Svo virðist vera sem það hafi verið vegna á­lags en hann lést skömmu síðar. Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur smit­sjúk­dóma­læknir lýst yfir á­hyggjum á spítalanum.

Í kvöld­fréttum kemur fram að Land­spítalinn hafi skráð málið sem al­var­legt at­vik og það muni svo fara í svo­kallaða rótar­greiningu. Ekki hafa fengist upp­lýsingar um það hvers vegna at­vikið var ekki skráð fyrr en í dag.

Páll, sem var sex barna faðir, lést þann 24. nóvember á heimili sínu eftir að hafa verið út­skrifaður þann 21. nóvember af bráða­mót­töku.

Í svörum Land­læknis til RÚV kemur fram að engin til­kynning hafi borist em­bættinu frá spítalanum. For­svars­menn spitalans segjast vera að vinna í til­kynningu, hún verði kláruð og svo send em­bættinu í fyrra­málið.