Landspítalinn hyggst skima starfsfólk sitt í auknum mæli í ljósi hópsmits sem upp kom á Landakoti.

Alma D. Möller landlæknir fundaði í morgun með Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, um þessi áform en hún segist ekki vita hvernig það verði útfært.

Þrettán manns hafa nú látist vegna COVID-19 hér á landi en í gær var tilkynnt um andlát einstaklings á níræðisaldri sem hafði verið sjúklingur á Landakoti. Landspítalinn er á neyðarstigi í fyrsta sinn og hafa fjölmargir velt upp þeim möguleika um að skima heilbrigðisstarfsfólk reglulega, líkt og er gert hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Þrengsli á starfsstöðum Landspítala

Alma segir þó margt vinna gegn reglulegri skimun starfsmanna Landspítalans.

„Húsnæði sérstaklega. Það hefur ekki mikið verið talað um það en húsnæði, bæði alls staðar á Landspítala og á Landakoti, er auðvitað barn síns tíma. Þar eru auðvitað þrengsli og örugglega mikil kúnst að viðhafa smitvarnir,“ sagði Alma og ítrekar að á Landspítala starfi fólk sem er fremst í smitvörnum á landinu. „Þar er gríðarleg þekking og allir að reyna að gera sitt besta en við mjög krefjandi aðstæður.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að hugsanlega væri hægt að skima á starfsstöðum þar sem ekki er hægt að hólfaskipta almennilega vegna manneklu. Það sé pláss og geta til þess.

„Ég veit að Landspítalinn hefur verið að gera sitt besta á öllum sínum starfsstöðvum til þess að til að tryggja það að smit berist ekki á milli en ég held að þetta sé bara eitt af því sem eigi eftir að koma fram í þessari úttekt hjá Landspítalanum sjálfum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag.

Hann segir reglulega skimanir á öðrum vinnustöðum og hópum undanfarnar vikur og mánuði hafi skilað mjög litlu en í ljósi hópsmitsins em kom upp á Landakoti væri hugsanlega hægt að taka upp nýtt vinnulag. „Sérstaklega á stöðum þar sem er kannski ekki hægt að gæta vel að öllum hólfaskiptingum og smitvörnum og svo framvegis.“