Fyrirséð er rúmlega tveggja milljarða króna fjárvöntun vegna kaupa á lyfsseðilskyldum lyfjum. Þetta kemur fram í umsögn Landspítala um fjárlög næsta árs og er þar lýst miklum áhyggjum af þeim áhrifum sem þetta kann að hafa.
„Ný en mjög dýr lyf gjörbreyta lífslíkum og lífsgæðum sjúklinga. Heimsmarkaðsverð á mörgum lyfjum hækkar mikið. Reiknaður vöxtur í fjárlagafrumvarpinu er 1,5% en raunveruleikinn þyrfti að vera um 10%. Að óbreyttu er ekkert svigrúm fyrir að taka ný lyf í notkun á árinu 2022 og fjárveitingar duga ekki fyrir þeim lyfjameðferðum sem nú þegar eru í gangi“, segir í umsögninni sem undirrituð er af Guðlaug Rakel Guðjónsdóttur, settum forstjóra Landspítala.
Dýr og flókin í notkun
Árið 2019 fól heilbrigðisráðherra spítalanum fjárhagslega ábyrgð á fjárlagalið er varðar S-merkt lyf. Með nýjum lyfjalögum sem tóku gildi síðustu áramót var hætt að merkja lyf með þeim hætti og urðu lyfin þá annaðhvort almenn eða leyfisskyld. Leyfisskyld lyf eru lyf sem eingöngu er heimilt að nota að undangengnu samþykki lyfjanefndar Landspítala. Slík lyf eru alla jafna kostnaðarsöm eða vandmeðfarin og krefjast sérfræðiþekkingar og aðkomu heilbrigðisstarfsfólks hvort heldur er vegna gjafar, eftirlits með sjúklingi eða eftirlits með notkun lyfsins.

„Þar sem lyfin eru flókin og dýr og innleiðing þeirra er gerð í áföngum tekur jafnan um þrjú ár fyrir kostnaðaráhrif af nýju lyfi að koma að fullu fram. Þannig munu áhrif af nýjum lyfjum sem tekin voru í notkun 2020 og 2021 hafa áhrif til hækkunar á árinu 2022“, segir í umsögninni.
Þar eru raktar helstu ástæður þess að kostnaður vegna lyfsseðilskyldra lyfja hafi aukist. Miklar verðhækkanir hafa orðið á lyfinu immúnóglóbúlín undanfarið vegna skorts á því á heimsvísu en lyfið er notað sem meðferð við Covid-19 smiti og ný krabbameinslyf sem komið hafa á markað á undanförnum árum eru afar dýr.
Samkvæmt umsögninni er áætlaður kostnaður vegna leyfisskyldra lyfja 14.669 milljarðar króna en fjárveitingar, að teknu tilliti til áætlaðra leiðréttinga og millifærslna vegna þess að hætt var að S-merkja lyf um síðustu áramót, 12.520 milljarðar. Því stefnir í 2.007 milljarða fjárvöntun á næsta ári.