„Það er sko allt í geggjuðum gír hérna á LSH,“ skrifar hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson á Facebook-síðu sinni, en ef til má þar greina nokkurn vott af kaldhæðni. Tilefni færslunnar er það að starfsmenn Landspítala hafa að sögn Tómasar fengið til sín leikfangabíla í stað lyftara frá fjármálaráðuneytinu fyrir mistök.

Tómas segir að bleiki plastbíllinn komi til með að færa læknum hugarró þar sem þeir geti þá leikið sér með þá eftir göngum spítalans. „Verra með sjúklingana - sem ekki er skemmt - og ljóst að meira þarf til en bara barbí-leikföng svo brúnin á þeim lyftist.“

Tómas bendir á að aðeins ein opin hjartaaðgerð hafi náðst í vikunni en fjórum hafi verið frestað vegna plássleysis á gjörgæslunni. Þar á meðal voru nokkrir sjúklingar sem var þá verið að fresta í fjórða skipti.