Tuttugu og tveir sjúk­lingar liggja nú á Land­spítala vegna Co­vid-19. Sau­tján sjúk­lingar liggja á bráða­legu­deildum spítalans og af þeim eru sex óbólu­settir. Á gjör­gæslu eru fimm sjúk­lingar í öndunar­vél en tveir þeirra eru óbólu­settir. Voru þeir sjö í gær. Engir sjúk­lingar í inn­lögn eru hálf­bólu­settir. Meðal­aldur inn­lagðra sjúk­linga er 62 ár.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá far­sótta­nefnd og við­bragðs­stjórn Land­spítala sem birt var í dag. Land­spítali er nú skil­greindur á hættu­stigi, sem er annað af þremur við­bragðs­stigum spítalans.

Alls hafa 87 sjúk­lingar lagst inn á Land­spítala með Co­vid í fjórðu bylgju far­aldursins sem hófst í júlí síðast­liðnum. Þarf af hafa fimm­tán þurft gjör­gæslu­stuðning. Um þriðjungur inn­lagðra er óbólu­settur.

Nú eru 946 manns, þar af 226 börn, á Co­vid göngu­deild spítalans sem er sam­bæri­legur fjöldi og í gær. Tveir sjúk­lingar eru metnir rauðir og 24 ein­staklingar gulir og þarfnast nánara eftir­lits. Þrettán starfs­menn eru í ein­angrun með Co­vid, 23 eru í sótt­kví A og 116 í sótt­kví C.

Land­spítali hvetur starfs­menn sína til að vakta líðan dag­lega og fara í sýna­töku ef ein­kenni koma upp. Fari heimilis­maður starfs­manns í sýna­töku þá skal starfs­maður vera heima í úr­vinnslu­sótt­kví þar til svar liggur fyrir.