Embætti landlæknis og almannavarnir segja áríðandi að vernda viðkvæma hópa yfir hátíðarnar og mæla með að landsmenn velji sér jólavini, þ.e. þá aðila sem þau ætla að hitta yfir hátíðarnar.

Á upplýsingafundi í dag var rætt um að fólk velji sér sína jólakúlu en Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að leiðbeiningarnar muni þróast og breytast í samræmi við grunnhugmyndir um sýkingavarnir og sóttvarnir.

Rafrænar samverustundir

Fyrsti sunnudagur í aðventu var í gær og fer nú undirbúningur fyrir jól og áramót að ná hámarki. Nýjan undirflokk má finna ávef Landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um það sem landsmenn þurfa að hafa í huga yfir hátíðirnar vegna kórónaveirufaraldursins.

Landlæknir og almannavarnir segja ýmsa möguleika á því að gleðjast saman þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Hér má finna leiðbeiningar þeirra um hvernig sé gott að haga málum yfir hátíðirnar.

 • Njótum rafrænna samverustunda
 • Eigum góðar stundir með heimilisfólkinu
 • Veljum jólavini (hverja við ætlum að hitta yfir hátíðarnar)
 • Hugum að heilsunni og stundum útivist í fámennum hópi
 • Verslum á netinu ef hægt er 
 • Verum tilbúin með innkaupalista þegar farið er að versla
 • Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim 
 • Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir.
Fólki re ráðlagt að forðast Pálínuboð.

Forðast Pálínuboð og söng

Á covid.is má finna leiðbeiningar um heimboð og veitingar. Líkt og á öðrum tímum þarf aðhuga að persónulegum sóttvörnum og er fólki ráðlagt að forðast að halda Pálínuboð, þ.e. samskotsboð eða hlaðborð.

Takmarka ætti fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn. Mikilvægt er að takmarka notkun á sameiginlegum áhöldum eins og tertuhnífum og kaffikönnum og þess háttar.

Forðast ætti söng og hávært tal, þá sérstaklega innandyra.

 • Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið.
 • Fylgjumst með þróun faraldursins.
 • Virðum fjöldatakmarkanir og tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir.
 • Forðumst samskotsboð („pálínuboð") og hlaðborð.
 • Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
 • Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur.
 • Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
 • Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega. 
 • Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá.
 • Takmörkum fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn.
 • Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
 • Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur.
 • Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.