Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar, segir að landsmenn þurfi líklega að venjast viðvarandi lyfjaskorti í landinu. Evrópulönd og Bandaríkin séu að glíma við sama vandamál. Þetta segir hún í samtali við Vísi.

Um hundrað lyf eru nú á bið­lista hjá Lyfja­stofnun. Það hefur til að mynda valdið því að nú eru notuð breið­virkari sýkla­lyf sem geta valdið lyfja­ó­næmi, vegna þess að skortur er á á­kveðnum tegundum sýkla­lyfja.

Rúna segir að vandinn sé þó ekki jafn slæmur og í Noregi þar sem um helmingi fleiri lyf vantar.

Rúna nefnir nokkrar ástæður fyrir lyfjaskortinum. Oft séu hráefnin og þar með lokaafurðin komin á fárra hendur, svo ef hnökrar komi á framleiðsluferlið hafi það víðtæk áhrif um allan heim.

Auknar kröfur um flutning og losun lyfja hafi einnig áhrif og nefnir hún einnig að markaðsleyfi lyfja hafi verið færð til í aðdraganda Brexit sem valdi töfum.

Kona með taugasjúkdóm sagði í kvöldfréttum RÚV í kvöld að tveggja mánaða bið sé eftir lyfjum sem hún þarf nauðsynlega á að halda. Krampalyfin sem hún þurfi að taka þrisvar á dag séu nú hvergi fáanleg.