Um helmingur Íslendinga styður uppbyggingu vindmyllugarða samkvæmt nýrri könnun Prósents en fjórðungur er á móti. Umhverfisráðherra segir þörf á að vanda sig en okkur liggi á.

Alls 48 prósent landsmanna styðja uppbyggingu vindmyllugarða á Íslandi. 26 prósent eru á móti. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents fyrir Fréttablaðið.

Sextán prósent þeirra sem tóku afstöðu eru mjög hlynnt vindmyllugörðum og 32 prósent frekar hlynnt. Þrettán prósent eru mjög andvíg og sama hlutfall frekar andvígt. 26 prósent höfðu ekki skoðun á málefninu. Þó að fleiri styðji uppbyggingu vindmyllugarða en eru á móti er stuðningurinn samt minni en við byggingu fleiri vatnsafls- og jarðvarmavirkjana, en hann mældist 66 hjá Prósent í könnun sem birt var í síðustu viku.

Tiltölulega lítill munur er á svörum eftir stjórnmálaskoðunum miðað við fyrri könnunina. Sammerkt er þó að Framsóknarmenn eru hrifnastir af því að virkja. 57 prósent Framsóknarmanna vilja byggja vindmyllugarða en 15 prósent eru á móti.

56 prósent Sjálfstæðismanna vilja byggja vindmyllur en 22 eru á móti. Hjá Viðreisn eru hlutföllin 53 prósent á móti 21, hjá Samfylkingu 50 á móti 29, hjá Flokki fólksins 49 á móti 31, hjá Sósíalistum 44 á móti 39, hjá Miðflokksmönnum 41 á móti 40 og hjá Pírötum 38 á móti 21. En 41 prósent Pírata hafði ekki skoðanir á málefninu, langhæsta hlutfallið.

Aðeins hjá kjósendum Vinstri grænna mældist meiri andstaða en stuðningur við byggingu vindmyllugarða. 40 prósent þeirra eru fylgjandi en 41 andvígt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segist ekki festa sig við neinar aðferðir þegar kemur að því að búa til græna orku. „Mitt hlutverk er fyrst og fremst að vinna að því að við fáum græna orku til að uppfylla loftslagsmarkmiðin,“ segir hann. „Við þurfum að vanda okkur og gæta jafnvægis en á sama tíma liggur okkur á.“

Stjórnvöld eru nú að skoða hvernig best sé að hafa fyrirkomulag vindorkuvera. Einn starfshópur er að rannsaka regluverkið í Noregi, Danmörku, Skotlandi og Nýja-Sjálandi. Annar er að skoða möguleika vindorku á sjó og sá þriðji að skoða reglugerðaumhverfið og reynslu annarra þjóða.

Guðlaugur segist ekki búast við því að öll þau áform sem nú eru í gangi verði að veruleika. En til dæmis er verið að skoða möguleika í Borgarbyggð, Norðurþingi og Múlaþingi.

„Sumt hefur ekki einu sinni farið fyrir rammaáætlun enn þá. Þannig að hversu mikið af þessum áformum verður að veruleika verður að koma í ljós,“ segir Guðlaugur. Það eina sem sé ákveðið eru Búrfellslundur og Blöndulundur.

51 prósent karla styður vindmyllugarða en 45 prósent kvenna. Andstaðan hjá báðum kynjum mældist hins vegar 26 prósent. Þegar litið er til aldurs eykst andstaðan með hækkandi aldri. 14 prósent 18 til 24 ára eru á móti en 38 prósent 65 ára og eldri. Stuðningurinn mælist hins vegar mestur hjá 35 til 44 ára, eða 56 prósent.

Munurinn á svörum eftir búsetu mældist nánast enginn. 48 prósent fólks á höfuðborgarsvæðinu styðja vindmyllur en 26 prósent eru á móti. Á landsbyggðinni mældust hlutföllin 47 prósent á móti 26. Þetta eru mjög ólík svör frá fyrri könnun, þar sem stuðningur við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir mældist mun meiri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu.

Könnunin var netkönnun gerð 22. til 30. desember. Úrtakið var 4.000 og svarhlutfallið 49,6 prósent.