Um 160.000 manns um land allt verða boðaðir í örvunarbólusetningu gegn Covid-19 fyrir áramót. Þetta kemur á vef stjórnarráðsins og þar segir að örvunarskammtar séu forsenda þess að ná tökum á útbreiðslu faraldursins í vetur. Örvunarbólusetning verður boðin öllum 16 ára og eldri þegar í það minnsta fimm mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu.
Á höfuðborgarsvæðinu verður bólusett í Laugardalshöllinni á tímabilinu 15. nóvember til 8. desember á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. Fólk verður boðað með strikamerki sem send verða í smáskilaboðum. Þau sem áður hafa fengið boð í bólusetningu en ekki þegið hana, eru hvött til að mæta.
„Lönd sem náð hafa góðum árangri í bólusetningum með almennri þátttöku urðu fyrir miklum áhrifum af delta-afbrigði kórónuveirunnar í sumar. Ísraelar sem voru í fararbroddi í bólusetningum komust að raun um – og fengu staðfest með gögnum – að því lengri tími sem liðinn var frá því að einstaklingur fékk seinni bóluefnaskammtinn, því meiri líkur voru á að hann smitaðist af delta-afbrigðinu, samanborið við þá sem nýlega höfðu verið bólusettir. Þeir mæltu í kjölfarið með því að fólk fengi örvunarskammt af bóluefni Pfizer og benda rannsóknir til þess að þannig megi draga verulega úr líkum á smiti eða alvarlegum veikindum. Nánar er fjallað um þetta í samantekt sóttvarnalæknis“, segir á vef stjórnarráðsins.
„Góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn Covid-19, sambærileg við það sem var í grunnbólusetningum í vor, er forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslunni nú í vetur án verulegra samfélagshafta“, segir í samtantekt sóttvarnalæknis.