„Þetta gerðist þannig að það voru 100 til 200 starfsmenn sem féllust á að taka þetta próf og fengu leyfi til að deila niðurstöðunum á Facebook. Á sólarhring voru allt í einu 35 þúsund manns búnir að taka prófið. Þannig að þetta gerðist ansi hratt og dálítið óvænt,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um rannsókn fyrirtækisins á persónuleika.

Um er að ræða próf sem hægt er að taka á heimasíðunni personuleiki.is en þátttakendur verða að hafa rafræn skilríki til að taka þátt. Fólk svarar spurningum um persónuleika sinn og birtast niðurstöðurnar á myndrænan hátt. Hægt er að sjá hvernig viðkomandi kemur út í samanburði við aðra þátttakendur.

Kári leggur áherslu á að gögnin sem berist séu algjörlega ópersónugreinanleg en rannsóknin hefur hlotið leyfi Vísindasiðanefndar. „Við höfum engan áhuga á persónuleika einstaklingsins. Við erum eingöngu að reyna að finna út hvað það er sem skilgreinir hóp af fólki sem er með sams konar persónuleika,“ segir Kári.

Skoða tengsl persónuleika og sjúkdóma

Íslensk erfðagreining hefur í rúm 20 ár leitað skýringa á því hvernig breytileikar í erfðamengi mannsins leiði til mannlegs fjölbreytileika. Kári segir að þá skipti töluverðu máli að skilja hvernig heilinn virki.

„Okkur langar að skilja hvernig heilinn býr til persónuleika og hvaða líffræðilegu ferlar búa þar að baki. Þegar þú ert kominn með slíka breytileika sem hafa áhrif á persónuleika er spennandi að kanna hvort þeir tengjast einhverjum sjúkdómum.“

Það sé ljóst að persónuleiki hafi áhrif á það hvernig við bregðumst við umhverfinu. „Hvernig við bregðumst við okkar umhverfi hefur meðal annars áhrif á það hvaða sjúkdóma við fáum. Það má setja þessa rannsókn í samhengi við margar aðrar rannsóknir sem við erum að vinna núna og höfum unnið fram til dagsins í dag.“

Samkvæmisleikur í óveðri

Kári segir að miðað við hvernig viðtökurnar hafi verið í upphafi megi búast við að enn bætist í þátttökuna um helgina.

„Þetta var sett í loftið rétt fyrir óveður. Þá sátu menn heima og höfðu ekkert að gera og hafa sjálfsagt tekið þetta sem einhvers konar samkvæmisleik. Það má kannski segja að það sem maður hafi lært af þessu sé að það beri að setja í loftið rannsóknir sem eru gerðar í gegnum netið daginn fyrir óveður.“

Sjálfur segist Kári ekki enn vera búinn að taka prófið. „Ég var að koma frá Kaliforníu og þegar maður er nýkominn þaðan hefur maður allt annan persónuleika heldur en venjulega. Ég ætla að bíða með þetta þangað til ég er búinn að ná mér af jet-laginu.“