Lög­reglan í Hafnar­firði var kölluð að heimili í Garða­bæ hinn 5. júlí 2016 eftir að Ragnar Sigurðs­son, lands­liðs­maður í fót­bolta, gekk þar ber­serks­gang, braut allt og bramlaði og hafði í hótunum við þá­verandi eigin­konu sína.

Þegar lögreglan kom á staðinn hafði Ragnar flúið vettvang en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var íbúðin í slæmu ástandi og sjáanlegar skemmdir víða. Samkvæmt heimildum fékk KSÍ upplýsingar um málið frá nágrönnum hjónanna en aðhafðist ekkert.

Nokkrum tímum fyrr, kvöldið 4. júlí, var heimkomu landsliðsmanna eftir EM í fótbolta í Frakklandi fagnað með pompi og prakt í miðbæ Reykjavíkur og var Ragnar uppi á sviði á Arnar­hóli á­samt öðrum lands­liðs­mönnum.

Lands­liðs­menn stigu á svið rétt fyrir klukkan átta en nokkrum tímum síðar barst lögreglunni símtal frá nágranna þeirra hjóna þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna óláta sem komu úr íbúðinni.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins hafði lög­reglan ekki hendur í hári Ragnars það kvöld en hann var boðaður í skýrslu­töku nokkrum dögum síðar og mætti til hennar á­samt lög­manni sínum. Sam­kvæmt heimildum neitaði hann að hafa beitt eigin­konu sína of­beldi eða sýnt ógnandi hegðun.

Nágrannar höfðu samband við KSÍ en ekkert gerðist

Lög­reglan tók einnig skýrslu af þá­verandi eigin­­konu Ragnars um kvöldið. En þrátt fyrir skýrslu hennar, á­­stand í­búðarinnar, sím­tal ná­granna við starfs­mann Neyðar­línunnar og sjáan­­legar skemmdir á í­búðinni felldi lög­reglan málið niður. Á­kæra var aldrei gefin út, hvorki fyrir eigna­­spjöll né heimilis­of­beldi.

Ná­grannar þeirra hjóna hafa sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins hringt í KSÍ og til­kynnt um meint heimilis­of­beldi Ragnars en KSÍ að­hafðist ekkert í málinu og var það þaggað niður að því er heimildir Frétta­blaðsins herma.