Lögreglan í Hafnarfirði var kölluð að heimili í Garðabæ hinn 5. júlí 2016 eftir að Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, gekk þar berserksgang, braut allt og bramlaði og hafði í hótunum við þáverandi eiginkonu sína.
Þegar lögreglan kom á staðinn hafði Ragnar flúið vettvang en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var íbúðin í slæmu ástandi og sjáanlegar skemmdir víða. Samkvæmt heimildum fékk KSÍ upplýsingar um málið frá nágrönnum hjónanna en aðhafðist ekkert.
Nokkrum tímum fyrr, kvöldið 4. júlí, var heimkomu landsliðsmanna eftir EM í fótbolta í Frakklandi fagnað með pompi og prakt í miðbæ Reykjavíkur og var Ragnar uppi á sviði á Arnarhóli ásamt öðrum landsliðsmönnum.
Landsliðsmenn stigu á svið rétt fyrir klukkan átta en nokkrum tímum síðar barst lögreglunni símtal frá nágranna þeirra hjóna þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna óláta sem komu úr íbúðinni.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði lögreglan ekki hendur í hári Ragnars það kvöld en hann var boðaður í skýrslutöku nokkrum dögum síðar og mætti til hennar ásamt lögmanni sínum. Samkvæmt heimildum neitaði hann að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi eða sýnt ógnandi hegðun.
Nágrannar höfðu samband við KSÍ en ekkert gerðist
Lögreglan tók einnig skýrslu af þáverandi eiginkonu Ragnars um kvöldið. En þrátt fyrir skýrslu hennar, ástand íbúðarinnar, símtal nágranna við starfsmann Neyðarlínunnar og sjáanlegar skemmdir á íbúðinni felldi lögreglan málið niður. Ákæra var aldrei gefin út, hvorki fyrir eignaspjöll né heimilisofbeldi.
Nágrannar þeirra hjóna hafa samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hringt í KSÍ og tilkynnt um meint heimilisofbeldi Ragnars en KSÍ aðhafðist ekkert í málinu og var það þaggað niður að því er heimildir Fréttablaðsins herma.