Garðabær og Knattspyrnusamband Íslands hafa samið um æfingaaðstöðu fyrir yngri landslið Íslands í íþróttahúsinu Miðgarði í Garðabæ.

Samningurinn er til þriggja ára. KSÍ hafði æft í Skessunni, húsi FH, síðustu ár.

KSÍ fær til afnota aðstöðu á skilgreindum rýmum í Miðgarði á tilteknum tímum dagsins, en um er að ræða bæði knattspyrnusalinn og stoðrými, svo sem búningsaðstöðu, sjúkraherbergi, fundaraðstöðu og mataraðstöðu, dómara- og þjálfaraherbergi og þrekæfingasvæði með gervigrasi.

Fyrstu KSÍ-æfingarnar í húsinu voru á dagskrá í september þegar hæfileikamótun drengja fór fram. Fram undan í október eru æfingar yngri landsliða.