„Já við ákváðum að flýta fundi, það er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar, sem kemur saman til fundar strax á föstudag til að úthluta þingsætum. Í gær stóð til að fundur landskjörstjórnar yrði boðaður 5. október sem er á þriðjudag í næstu viku.

Aðspurð segir Kristín að engar nýjar vendingar hafi orðið til þess að fundurinn fer fram fyrr en áætlað var, fundinum hafi verið flýtt til að draga ekki ferlið á langinn.

Þegar landskjörstjórn hefur úthlutað þingsætum á grundvelli kosningaúrslita í kjördæmum, tekur undirbúningsnefnd fyrir störf kjörbréfanefndar til starfa. Úthlutun þingsæta af hálfu landskjörstjórnar er forsenda þess að hægt sé að setja Alþingi og kjósa kjörbréfanefnd og hefja það ferli sem fara þarf fram til að Alþingi geti skorið úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir eins og kveðið er á um í 46. gr. stjórnarskrárinnar.