„Þessar aðgerðir kippa gjörsamlega fótunum undan okkar rekstri núna,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi Hótel Hallormsstaðar og Hótels Valaskjálfar, aðspurður um áhrif hertra sóttvarnareglna á jólavertíðina á hótelunum, svo sem á jólahlaðborð.

„Við fórum í „lockdown“ í fyrra en það er ekki þannig núna. Við erum með fullt af starfsfólki sem þarf að borga laun og ég spyr bara: Hver ætlar að gera það?“ segir Þráinn.

„Stjórnvöld verða að fara að átta sig á því að þau geta ekki sett svona reglur án þess að bera ábyrgð á kostnaðinum,“ segir Þráinn, en engar sérstakar reglur eru varðandi laun til starfsfólks á stöðum sem skylt er að loka fyrr en vanalegt er vegna reglnanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun geta þau sem skráð eru í starfshlutfall sem þau ná ekki að fylla í vegna takmarkana á opnunartíma, sótt um atvinnuleysisbætur á móti.

Fimmtíu manns mega koma saman frá og með deginum í dag en breyttar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti. Þó er heimilt að halda viðburði fyrir allt að 500 manns svo lengi sem allir gestir skili neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Á veitingastöðum er heimilt að hafa opið til klukkan tíu á kvöldin og einungis mega vera fimmtíu manns í hverju rými. Einungis er heimilt að afgreiða mat og drykki í sæti.

„Jólahlaðborðin áttu að hefjast í næstu viku og ég er nú þegar farinn að kaupa inn svo þetta er kostnaður upp á fleiri fleiri milljónir og enginn hagnaður kemur á móti,“ segir Þráinn, sem sér ekki fram á að geta boðið upp á sín vanalegu jólahlaðborð og jólaveislur með gildandi takmörkunum.

Þá segir hann reglurnar beinast sérstaklega að veitingamönnum, meira sé lagt í að enn sé hægt að halda viðburði, svo sem tónleika og leiksýningar.

„Svo er þetta sérstaklega ósanngjarnt fyrir okkur sem erum úti á landi,“ segir Þráinn og vísar til þess að fá tilfelli Covid hafi greinst á Austurlandi. „Við erum á Egilsstöðum þar sem eru nánast engin smit og þannig hefur það verið nánast allan tímann, svo eigum við bara að skella í lás alveg eins og í Reykjavík þar sem fullt er af smitum,“ segir hann.

„Það eru 20 manns á sjúkrahúsi og fjórir í öndunarvél í öllum þessum smitum. Kannski er kominn tími til þess að velta því fyrir sér hvort vandamálið sé heilbrigðiskerfið eða Covid.“