„Þetta er bara alls ekki að batna,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir þingkona Miðflokksins, um bið eftir sálfræðiþjónustu víða um land. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hennar um efnið, sem birt var á vef Alþingis í vikunni, kemur fram að bið eftir viðtali hjá sálfræðingi sé allt að sex til sjö mánuðir bæði fyrir börn og fullorðna, en biðin er mislöng eftir landshlutum.

Anna Kolbrún hefur óskað eftir upplýsingum um biðina á hverju ári á kjörtímabilinu og fylgist með breytingum milli ára. Að hennar sögn sýna svörin að vandinn sé síður en svo að minnka, þrátt fyrir mikla umræðu í samfélaginu undanfarin misseri. Þá hefur vanlíðan barna og ungmenna í faraldrinum einnig vakið athygli og hafa sérfræðingar lýst áhyggjum af þeirri þróun. „Það verður áhugavert að bera saman tölur um bið og biðlista fyrir og eftir faraldurinn,“ segir Anna Kolbrún.

„Maður myndi halda að það væri auðveldast að manna stöður á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins betur, enda biðlistinn þar hrikalega langur,“ segir Anna Kolbrún.

Úr svari ráðherra um bið eftir sálfræðiþjónustu og mönnun.

Hún bendir hins vegar á annars konar vanda á landsbyggðinni.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum hefur þjónustan verið boðin út, en þar geta einyrkjar ekki tekið þátt, heldur þurfa þeir að vera bundnir einhverri stöð. Svo er verið að reyna að redda einhverju í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu,“ segir Anna Kolbrún og bætir við: „Hér skortir einfaldlega á samningsviljann.“

Þá tekur Kolbrún dæmi um börn með sjálfskaðandi hegðun á Austurlandi. Þau geti fengið innlögn og þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni, BUGL, en þegar þau fari heim eftir útskrift fái þau enga þjónustu í heimabyggð.

„Það þarf að opna á fleiri aðila, það þýðir ekki að stofnanavæða einkareksturinn líka,“ segir Anna Kolbrún. „Sjálfstætt starfandi sálfræðingar ættu að fá að gera samninga,“ segir Anna Kolbrún og bendir á að vel sé hægt að búa til farveg fyrir slíkt.

Hún segir einnig að það fjármagn sem komi inn í málaflokkinn sé of eyrnamerkt sérstökum verkefnum og því takmarkað svigrúm til að verja því þar sem þörfin er mest.