Landsréttur sýknaði í dag konu fyrir hlutdeild nauðgun á ólögráða þroskahamlaðri konu árið 2016. Var konan dæmd í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða árið 2018.

Fram kom í dómi héraðsdóms að hún hafi gefið brotaþola óþekkta töflu og látið hana reykja kannabisefni. Þá hafi hún fróað sér á meðan hún horfði á mann, sem lést áður en dæmt var í málinu í héraði, brjóta kynferðislega á brotaþola.

Manninum var gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni en neitaði sök við þingfestingu í héraði. Hann var sagður hafa notfært sér að hún hafi verið ein og mátt sín lítils gagnvart honum og sambýliskonu hans inni „í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja/og eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað.“

Kannaðist hvorki við aldur eða þroskahömlun

Konan hafnaði því fyrir héraðsdómi að hún hafi gefið brotaþola vímuefni eða að hún hafi verið beitt ofbeldi. Fram kom fyrir að brotaþoli hafi passað börn konunnar tvö sumur, þrátt fyrir það sagðist konan ekki vita hvað hún væri gömul, hún hafi haldið að brotaþoli væri 18 ára sem hún var ekki. Þá kannaðist konan ekki við að brotaþoli væri með þroskahömlun og hefði ekki leyft henni að passa börnin sín ef hún hefði vitað það. Héraðsdómur taldi það ekki trúverðuglegt. Brotaþoli gaf aftur skýrslu fyrir Landsrétti, var það mat dómsins að augljóst væri að hún væri með þroskaskerðingu.

Í dómi Landsréttar segir að það sé ekki sannað að konan hafi hjálpað manninum að brjóta á brotaþola. „Þvert á móti er ekkert fram komið í málinu sem hnekkt getur þeim framburði ákærðu að hún hafi komið fram við brotaþola af þeirri virðingu að leita eftir skýru samþykki hennar fyrir því að veita Y munnmök og virða þá ósk hennar að eiga ekki sjálf kynferðislegt samneyti við hana auk þess sem hún hafi heyrt brotaþola samþykkja að hafa við Y samfarir,“ segir í dómi Landsréttar.