Ítölskum jarðvísindamönnum sem rannsakað hafa sýni úr Grænlandsjökli hefur tekist að sjá ummerki skógarelda á Íslandi yfir fimm þúsund ára tímabil. Vísindamennirnir hafa birt niðurstöður sínar í tímaritinu Climate of the Past og segja þær sýna vel tengsl mannlegrar hegðunar, skógarelda og loftslagsmála.

„Landnám víkinganna á Íslandi olli einu af fyrstu umhverfisslysunum í sögunni. Jafnvel í dag, þúsund árum síðar, hafa íslenskir skógar ekki jafnað sig,“ segir Delia Segato frá Ca Foscari-háskólanum í Feneyjum, í tilkynningu með rannsókninni. Á aðeins einni öld hafi fjórðungur alls gróðurs horfið af landinu þar sem landnemarnir hjuggu birkiskóga til eldiviðar og til þess að ryðja land fyrir búfénað.

Úr ísnum á Grænlandsjökli hafa vísindamennirnir náð að sigta út og greina kolefni, ammóníak og beðmi, sem verður til við plöntubruna. Sáu þeir að brunarnir minnkuðu mikið fyrir um 4.500 árum síðan, samfara því að jöklarnir hafi stækkað. Hafi eldar hins vegar aukist mikið á undanförnum 200 árum.