Landlæknisembættið á að skila heilbrigðisráðherra svörum fyrir 15.maí um hvort fýsilegt sé að færa greiningu leghálssýna úr krabbameinsskimun til Landsspítalans. Ráherra telur að svör muni þó berast fyrr en það.

Þetta kom fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra í morgun að loknum ríkisstjórnarfundi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
Fréttablaðið/Ernir

Hún hafi beðið Landsspítalann um að meta upp á nýtt hvort verkefnið gæti verið framkvæmt þar. Nú eru skimanir gerðar á heilsugæslustöðvum á Höfuðborgarsvæðinu í stað hjá Krabbameinsfélaginu áður og sýnin send úr landi til greiningar í stað greiningar hjá félaginu.

Um svar Landsspítalans segir Svandís: „Þau töldu að þau gætu þetta með ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þannig að Heilsugæslan skilaði til ráðuneytisins umsögn og þar eru fyrst og fremst bara spurningar um gæðamálin. Það er svo verkefni embætti Landlæknis að leggja mat á það.

„Ég hef aldrei útilokað það,“ segir Svandís um þann möguleika að færa greiningarvinnuna til landsins aftur frá Danmörku.

Gagnrýnt hefur verið að með sýnasendingum til útlanda sé flækjustig aukið, milliliðum fjölgi sem auki hættu á mannlegum mistökum.

Margar konur hafa sagt frá óvissu og langri bið eftir niðurstöðum úr skimunum og slæmri upplýsingagjöf frá heilbrigðiskerfinu. Aðspurð hvað Svandís vilji segja við þær konur segir hún að tíminn eigi að vinna með þeim og biðtími eftir niðurstöðum hafi undanfarið styst.

„Þetta stendur allt til bóta, við erum að tala um að núna er þetta komið niður í fjórar til sex vikur, markmiðið er að það séu þrjár vikur, þannig að þetta er allt á góðri leið. Heilsugæslan á Höfuðborgarsvæðinu hefur passað upp á að vera með nýjustu upplýsingar á heimasíðunni þar, þannig að ég bendi á það, en ég held að þetta sé mál sem verður ekki friður um fyrr en verkefnið er farið að ganga vel,“ sagði Svandís í morgun.

Páll Matthíasson forstjóri Landsspítalans hefur kvittað upp á að spítalinn hafi það sem þarf til að greina sýnin
Fréttablaðið/Valli

Í svari frá Landspítalanum frá 15.mars sem undirritað var af Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans kemur fram að skýrt sé að spítalinn sé vel í stakk búinn til að taka við HPV rannsóknunum, enda nýbúinn að taka í notkun nýtt Cobas 8800 greiningartæki frá Roche, sem meðal annars er notið við skimun vegna Covid-19 - líkt og kom fram í frétt Vísis þann 9.apríl sl.

Spítalinn "sem slíkur" tekur ekki afstöðu

Hvort æskilegt sé að spítalinn taki þetta verkefni að sér til frambúðar segir Páll í svari til Fréttablaðsins á mánudag, að spítalinn taki enga afstöðu. "Hér vegast á sjónarmið sem Landspítali sem slíkur hefur ekki skoðun á," segir í svarinu.

Þessi hluti skimunarmála kvenna hefur lengið og mikið verið í umræðunni frá áramótum og heilbrigðisráðherra gagnrýndur bæði innan þings og utan fyrir flutning leghálssýnanna til útlanda. Í byrjun árs sagðist ráðherra á þeirri skoðun að það tryggði rétta greiningu sýna að senda þau út.