Mörg ríki hafa gefið út leiðbeiningar um hvernig eigi að meðhöndla lík einstaklinga sem falla frá af völdum COVID-19 sjúkdómsins. Þeir sem umgangast lík þessara einstaklinga þurfa að fara að öllu með gát enda er talið að af þeim geti stafað væg sýkingarhætta.


Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið nokkur kurr meðal útfararstjóra landsins yfir skorti á upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum. Þeir fagni því að brugðist hafi verið við og að farið verði yfir nauðsynlega verkferla við útfarir.

Í svari Landlæknisembættisins kemur fram að upplýsingarnar verði gerðar aðgengilegar á netinu í þessari viku. „Slíkar leiðbeiningar eru tilbúnar en ekki var talið tilefni til að birta þær fyrr en á hættustigi,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, á sóttvarnasviði embættisins, í skriflegu svari til blaðsins.

Ekki liggur fyrir hvaða tilmæli verða gefin út hérlendis en að öllum líkindum taka þau mið af reglum annarra landa. Þannig hafa bresk heilbrigðisyfirvöld gefið út ítarlegar leiðbeiningar þar sem farið er yfir hvernig þeir sem komast í tæri við líkið eiga að bera sig. Í leiðbeiningunum kemur fram að möguleiki sé á því að loft úr lungum hins látna þrýstist út í andrúmsloftið og skapi væga sýkingarhættu. Það eigi sérstaklega við þegar verið er að færa líkið milli staða.

Því eigi sem allra fyrst að færa líkið í einangraðan líkpoka og allir sem meðhöndla það þurfa að vera í viðeigandi hlífðarbúnaði. Miklar kröfur eru síðan gerðar um hreinlæti og þrif sem og örugga eyðingu alls hlífðarfatnaðar. Þá taka bresk yfirvöld sérstaklega fram að leyfilegt sé að sýna ástvinum lík hins látna í líkhúsi en aðeins ef viðstaddir eru í viðeigandi hlífðarfatnaði.

Heimilt er að þvo líkið en bresk yfirvöld leggjast gegn því að smurning verði framkvæmd. Ekki er sérstaklega mælst til þess að líkið verði brennt.

Sams konar reglur hafa verið settar í Hong Kong. Þar er COVID-19 veirusjúkdómurinn í sama flokki og aðrir smitsjúkdómar eins og HIV, SARS og fleiri.

Nauðsynlegt er að líki sé komið strax fyrir líkpoka og aðgát sé höfð við kistulagningu. Þá er mælst til þess líkið verði brennt þó að það sé ekki skylda.