„Það væri misráðið að Íslendingar færðu þessa umræðu inn á Alþingi,“ segir landlæknir í umsögn sinni um þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, eða líknardráp.

Átta þingmenn hafa lagt fram tillögu um að heilbrigðisráðherra verði falið að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð. Skoða á ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið. Tillagan gerir einnig ráð fyrir að skoðað verði hvernig umræðan er um málefnið á Norðurlöndum, Þýskalandi og Kanada. Þá vilja þingmennirnir að hugur íslenskra heilbrigðisstarfsmanna til líknardráps verði kannaður.

Landlækni hugnast þetta ekki. Hann bendir á að á hinum Norðurlöndunum fari umræða um þessi mál fram á samnorrænum vettvangi utan þings og án þrýstings frá stjórnmálum. „Það væri misráðið að Íslendingar færðu þessa umræðu inn á Alþingi og enn verra að fela heilbrigðisráðherra og ráðuneyti að takast á við þetta verkefni þegar mörg önnur mikilvægari verkefni bíða úrlausnar í heilbrigðiskerfinu,“ skrifar landlæknir en embættinu gegnir Birgir Jakobsson.

Við þetta má bæta að umsögn Kaþolsku kirkjunnar á Ísland og Rétttrúnaðarkirkjunnar, sem er líka komin til Alþingis, er á þá leið að líknardráp sé glæpsamlegt athæfi. „Fyrst og fremst viljum við segja að það að drepa einhvern eða að hjálpa honum að fyrirfara sér er hvorki euthanasia (dauði með gleði) né dánaraðstoð (það að hjálpa einhverjum sem er að deyja), heldur glæpsamlegt aðgerð. Þá getum við á engan hátt samþykkt slíka gjörninga vegna þess að þeir brjóta gegn náttúrulegum lögum og eru einnig andstæðir meginreglum kristinnar trúar.“

Fram kemur að það sé aldrei tímabært að hefja opinbera umræðu um þetta mál því hættan sé sú að hún leiði til „misskilnings og misnotkunar“. „Von okkar er að umræður um þessi málefni komi ekki til kasta Alþingis, en ef svo fer, að þingmenn séu svo skynsamir að þeir beri gæfu til að taka málið sem fyrst af dagskrá.“

Norðurlöndin eigi langt í land

Í umsögninni kemur fram að á ráðstefnu norrænu lífsiðfræðinefndarinnar sem haldin var í Reykjavík í haust hafi komið fram samdóma álit þeirra sem tóku til máls að Norðurlöndin ættu langt í land áður en þau væru komin á það stig að gera breytingar í átt að dánaraðstoð. Sama viðhorf hafi birst á ráðstefnu í Stokkhólmi í nóvember. Dánaraðstoð væri óþörf þar sem næg úrræði væru fyrir hendi til að tryggja góða meðferð í lok lífs innan núgildandi ramma laga.

Landlæknir segir að Íslendingar geri réttast í því að fylgjast með þeirri umræðu og þróun sem á sér stað í nágrannalöndunum. „Til þess eru nægir vetvangar [sic] í dag án þess að umræðan sé færð inn á alþingi Íslendinga. Landlæknir mælir því eindregið gegn þessari tillögu til þingsályktunartillögu.“