Embætti landlæknis gaf í dag út aðvörun þar sem „líklegt verði að teljast að apabóla muni berast til Íslands á næstunni“. Þannig er staðfest að líklegt þyki að smit komi til með að greinast hér á næstu dögum.

Þær ráðstafanir sem hægt er að grípa til svo hægt sé að forðast smit er meðal annars að „forðast náin samneyti við ókunnuga á ferðalagi erlendis þ.m.t. kynmök“

Einnig er bent á að þeir sem sýktir eru skuli halda a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá öðrum og forðast að deila fatnaði, handklæðum og rúmfötum með öðrum þar sem smit geti borist á milli manna með þessum hætti.

Smitaðir einstaklingar ættu einnig að forðast samneyti við dýr á meðan þeir eru með einkenni.

Fólk er talið smitandi þar til síðustu blöðrur á húð hafa þornað en það geti tekið allt að 2-3 vikur.

Fleiri tilfelli greinast í Bretlandi

Samkvæmt fréttum BBC bættust 36 ný tilfelli við í Bretlandi sem færir heildartölu smitaðra upp í 56.

Bretar hafa einnig viðrað áhyggjur af þeim áhrifum sem sjúkdómurinn kann að hafa á aðgengi fólks að læknisfræðiaðstoð við kynsjúkdómum.

Eins og fram hefur komið hafa Bretar boðað allt að þriggja vikna einangrun fyrir einstaklinga sem átt hafa samneiti við smitaða einstaklinga.

Eru þá starfsmenn spítala sem sinna húð og kynsjúkdómum í sérstökum áhættuhópi.