Embætti landlæknis hefur ákveðið að stefna fyrirtækinu Köru Connect ásamt fleiri aðilum vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála.

Þetta kemur fram í tilkynningu embætti landlæknis en embættið unir ekki úrskurði kærunefndar og segir að kostnaður við að framfylgja þeim tilskipunum sem fram í honum koma hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Málið varðar upprunalega kæru sem kom fram í kjölfar fyrstu kaupa á fjarfundarbúnaði og samþættingu hans við sjúkraskrárkerfi Sögu, Heklu heilbrigðisnet og sjúklingagáttina Heilsuvera. Vildi þá fyrirtækið Kara Connect meina að ekki hafi verið löglega staðið að útboði þessara þróunarverkefna en fyrirtækin Origo og Sensa stóðu meðal annars að vinnunni.

Í úrskurði kærunefndar kom fram að embætti landlæknis hafi ekki farið að lögum hvað varðar útboð við framkvæmd þessara verkefna og var því 9 milljón króna stjórnvaldssekt gefin út á Landlækni. Þá þurfti Landlæknir einnig að greiða tvær milljónir króna í málskostnað til Köru Connect.

Landlæknir segist harma að málið skuli enda með þessum hætti en tekur þó fram að embættið geri ekki athugasemd við kæru Köru Connect heldur fremur úrskurð kærunefndar útboðsmála. Helst myndi embættið vilja stefna kærunefndinni en ekki sé möguleiki á slíkri kæru.

Ástæða þess að stefna þurfi fyrirtækinu Kara connect sé að stefna þurfi kæranda og öllum aðilum máls til þess að fá breytingu eða ógildingu á úrskurði nefndarinnar fallist hún ekki á endurupptöku.