Alma Möller, landlæknir, sagðist ekki geta staðfest fjölda þeirra sem hafa látist úr sjálfsvígum vegna Covid-19.

Vísir.is greindi frá því á mánudaginn að tæplega 100 manns hefðu látið lífið vegna sjálfsvíga eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst. Alma vildi ekki staðfesta þessar tölur en sagði að málið væri til skoðunar.

Þetta kom fram í svari Ölmu við fyrirspurn Fréttablaðsins í lok Covid-19 upplýsingafundar almannavarna í dag.

Krufning taki tíma

Alma sagði að ekki væri búið að staðfesta tölur yfir fjölda sjálfsvíga á þessu ári, það tæki alltaf tíma að fá út úr krufningum. Það væri ekki fyrr en á næsta ári sem þær tölur lægu fyrir.

Aðspurð hvort til stæði að efna til markvissari mótvægisaðgerða í geðheilbrigðismálum, til að bregðast við þessu, sagði Alma að ákveðnar forvarnaráætlanir væru í gangi gegn sjálfsvígum og að unnið væri markvisst að þeim.

Þá hefði auknum fjármunum verið varið til geðheilbrigðismála frá því að faraldurinn hófst.

Ný veira

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir Omíkron-afbrigðið eins og nýjan sjúkdóm og að mörgu leyti eins og nýja veiru miðað við fyrri afbrigði.

Þórólfur segir viðræður sínar við sóttvarnalækna á Norðurlöndunum vera nákvæmlega þær sömu og almenningur fær að heyra hér á landi.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna sem fór fram í morgun sem svar við spurningu Fréttablaðsins í lok fundar.

Að sögn Þórólfs sé nauðsynlegt að fá grunnupplýsingar um eiginleika nýju veirunnar til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um sóttvarnir.

Pólitísk öfl

Norðurlöndin séu að nýta sér sömu upplýsingar og séu í raun að gera þetta saman. Niðurstaðan sé hins vegar oft aðeins öðruvísi, það sé vegna ýmissa pólitískra afla sem stýra endanlegri útkomu.

Þá segist Þórólfur ekki ætla að leggja til að breytingar verði gerðar á lengd sóttkvíar og einangrunar enn sem komið er. Líkt og gert hefur verið í Bandaríkjunum.

Ef þér líður illa eða einhverjum sem þú þekkir þá skaltu leita þér hjálpar strax. Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og hægt er að hringja allan sólarhringinn í hjálparsíma Rauða krossins, 1717 eða hafa samband við netspjallið 1717.is.