Heilbrigðisráðuneytinu barst erindi frá íslenskum umsækjanda um sérfræðileyfi í heimilislækningum, sem hafði stundað læknanám hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Umsækjandinn gerði athugasemdir við að þurfa að greiða fimmtíu þúsund krónur til þess að umsókn hans um sérfræðileyfi yrði tekin til efnislegrar meðferðar.

Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn var Embætti landlæknis veitt heimild til að innheimta sérstakt gjald fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi.

Markmiðið með gjaldtökunni var að koma í veg fyrir að mikil vinna yrði lögð í umsóknir sem lítil alvara væri á bak við og til að standa undir kostnaði við yfirferð og mat á umsóknum.

Gjaldið tæki til þeirra sem lokið hefðu námi í EES-ríki og í ríki sem hefur ekki samið um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, það eru ríkisborgarar frá ríki utan EES.

Íslenski umsækjandinn leitaði því til heilbrigðisráðuneytisins um hvort lagastoð væri fyrir því að hann þyrfti að greiða umsóknargjaldið, þar sem hann væri íslenskur ríkisborgari og hefði lagt stund á nám sitt á Íslandi.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins segir að vilji löggjafans og ráðherra sem lögfesti gjaldskrána sé að aðeins hafi staðið til að innheimta gjald af þeim sem hefðu lokið námi í EES-ríki og ríkisborgurum frá ríkjum utan EES. Því sé landlækni ekki heimilt að innheimta gjald fyrir skoðun umsóknar íslensks ríkisborgara um sérfræðileyfi, sem fór að öllu leyti fram hér á landi og af öðrum í sambærilegri stöðu.

Í ljósi stöðunnar sem nú sé komin upp telur heilbrigðisráðuneytið að ráðast verði í endurskoðun á gjaldskrá og að gjaldtökuheimildir landlæknis verði skýrðar nánar. Þar til þeirri vinnu sé lokið skuli Embætti landlæknis stranda straum af kostnaði sem fellur til vegna umsagnarvinnu í tengslum við öflun sérfræðileyfa og starfsleyfa.

Fréttablaðið sendi Embætti landlæknis fyrirspurn vegna málsins. Spurt var meðal annars um hversu margir íslenskir ríkisborgarar sem stunduðu nám sitt hér á landi hefðu greitt umrætt gjald og hvort embættið myndi hafa frumkvæði að endurgreiðslu. Ekki hafa enn borist svör frá embættinu.