Landhelgisgæslan fær seinna í mánuðinum til sín tvær nýjar Airbus H225 þyrlur, sérhannaðar til leitar- og björgunarstarfa. Þetta er fyrsta skrefið í endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar sem stefnir að því að endurnýja allar þyrlur í flota sínum fyrir 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Landhelgisgæslan sendi frá sér í morgun.

Airbus H225 þyrlurnar eru nýjasta gerð Super Puma þyrla og eru vélar þeirra aflmeiri en eldri þyrlur Landhelgisgæslunnar og jafnframt liprari í flugi. Nýju þyrlurnar eru leigðar frá norska þyrluleigusalanum Knut Axel Ugland Holding AS og verða teknar í notkun í lok apríl.

„Reynsla okkar af Super Puma vélum í okkar flota hefur verið frábær í gegnum árin. Í heild hafa þær nýst okkur í Landhelgigæslunni virkilega vel við sumar af þeim erfiðustu aðstæðum tekist er á við þegar kemur að leitar- og björgunaraðgerðum á heimsvísu,“ segir Sindri Steingrímsson, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar.

„Við væntum þess að nýi flotinn muni styrkja öryggi aðgerða okkar, frammistöðu og áreiðanleika en jafnframt nútímavæða flotann til að mæta núverandi þörfum.“

Fulltrúar frá Airbus Helicopters munu sjá um þjálfun flugmanna og flugvirkja Landhelgisgæslunnar í meðhöndlun og stjórnun nýju þyrlanna sem eru tveggja hreyfla og 11 tonn að þyngd.