Bæði í­búar í Skerja­firði og ýmsar stofnanir mæla gegn land­fyllingu vegna upp­byggingar á nýju hverfi austan við í­búða­byggðina í Skerja­firði.

Meðal fjöl­margra sem sent hafa borginni at­huga­semdir vegna Nýja-Skerja­fjarðar, eins og hverfið er kallað, er Prýði­fé­lagið Skjöldur, sem eru í­búa­sam­tök Skerja­fjarðar sunnan flug­vallar. Sam­tökin gera at­huga­semdir við fjöl­mörg at­riði varðandi nýja hverfið.

„Eru gerðar al­var­legar at­huga­semdir við land­fyllingu við Skerja­fjörð sem mun raska náttúru­legri fjöru sem hefur hátt verndar­gildi og til stendur að friða. Á­form um slíka land­fyllingu er í hróp­legu ó­sam­ræmi við yfir­lýsta stefnu meiri­hlutans um að hlúa eigi að grænum svæðum og vernda eigi líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika,“ segir í at­huga­semdum Skjaldar sem vitnar til um­sagna ýmissa stofnana.

„Sí­fellt hefur verið gengið á fjörur á höfuð­borgar­svæðinu og hér er fyrir­hugað að taka enn eitt svæðið undir byggð. For­sendur fyrir þéttingu byggðar, og þeirri hag­kvæmni sem því getur fylgt, eiga ekki að byggjast á því að raska líf­ríkustu svæðum Reykja­víkur,“ segir í um­sögn Náttúru­fræði­stofnunar. Sam­kvæmt um­hverfis­mati sé til­lagan í alla staði talin nei­kvæð fyrir líf­ríki svæðisins.

„Er hún því í raun í and­stöðu bæði við lög um náttúru­vernd og stefnu Reykja­víkur­borgar. Það er því ein­kenni­legt að for­sendur fyrir skipu­laginu eru þess eðlis að ekki er talið hægt að leysa það með öðrum hætti en að fara í land­fyllingar.“

Neikvæð áhrif á fjörulíf

Í um­sögn Haf­rann­sókna­stofnunar segir „að fyrir­huguð land­fylling í Skerja­firði muni hafa nei­kvæð á­hrif á fjöru­líf“. Þessi svæði séu mikil­væg fyrir smá­dýra­líf, fugla og sem upp­eldis­svæði fiska.

„Þótt í breytinga­til­lögunni sé gert ráð fyrir að dregið verði úr um­fangi fyrir­hugaðrar land­fyllingar, mun hún engu að síður valda skerðingu á fjöru sem talin er hafa hátt verndar­gildi og er ein af fáum náttúru­legum fjörum sem eftir eru í Reykja­vík,“ segir í um­sögn Skipu­lags­stofnunar.

„Um­hverfis­stofnun bendir á að til­lagan muni raska ó­röskuðu landi sem er mikil­vægt bú­svæði og hefur hátt verndar­gildi,“ segir í um­sögn Um­hverfis­stofnunar.

Um­hverfis­mat snúist ekki síst um fyrir­komu­lag og hönnun landfyllingar

Um­hverfis- og skipu­lags­svið og skipu­lags­full­trúi Reykja­víkur fyrir hönd borgarinnar segja í svörum við at­huga­semdum sem hafa borist að hafa beri í huga að um­hverfis­mat snúist ekki síst um fyrir­komu­lag og hönnun land­fyllingar og hvernig megi tryggja að náttúru­leg strönd myndist að nýju.

„Á­hrif land­fyllingar verða nei­kvæð þar sem nú­verandi fjara fer undir land­fyllinguna en gert er ráð fyrir að náttúran í formi sjávar­falla móti nýja náttúru­lega fjöru með
tímanum,“ segir í svörum full­trúa borgarinnar.

„Sam­hliða um­hverfis­matinu er verið að rann­saka fugla­líf og fjöru og út­færa bæði land­fyllingu og sjávar­garða á þann hátt að endur­heimta megi náttúru­legar leirur með til­heyrandi fugla- og sjávar­lífi,“ segir enn fremur í svörum borgarinnar.