Orka náttúrunnar hyggur á endurbætur á Andakílsárvirkjun. Landeigendur telja um mikla breytingu að ræða og ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti að meta umhverfisáhrifin hefur verið kærð.

„Þeir skáka í því skjólinu að virkjunin sé svo gömul og að þeir séu bara að fara í lagfæringar,“ segir Hulda Guðmundsdóttir, á Fitjum í Skorradal, sem kærði þá ákvörðun að endurbætur á Andakílsárvirkjun þyrftu ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Orka náttúrunnar hyggur á framkvæmdir við Andakílsárvirkjun. Um er að ræða uppgröft á jarðefnum úr lónstæðinu og endurgerð stíflumannvirkja. Skipulagsstofnun ákvað í júlí að framkvæmdin þyrfti ekki umhverfismat.

Hulda kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að ákvörðunin yrði ógilt. Til vara krafðist hún þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað þar til skorið yrði úr um lögmæti hennar. Þessari frestunarkröfu hefur úrskurðarnefndin nú hafnað en aðalkrafan um ógildingu er óafgreidd.

„Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða matsskylduákvarðanir,“ segir í úrskurði nefndarinnar sem bendir á að ekki hafi enn verið gefin út kæranleg byggingar- eða framkvæmdaleyfi.

Hulda segir afstöðu landeigenda á svæðinu þá að framkvæmdin sæti umhverfismati. Vegna aldurs hafi á sínum tíma ekki þurft að gefa út virkjunarleyfi. Landeigendurnir telji það frumatriði að slíkt leyfi þurfi nú að liggja fyrir áður en farið verði í miklar framkvæmdir við mannvirkin.

„Við erum að reyna að fá því framgengt að ekkert sé gert fyrr en þetta virkjunarleyfi liggur fyrir þar sem tekið er á svo mörgum umhverfisþáttum. Þeir segja að virkjunin sé svo gömul að það þurfi ekki. Á þeim forsendum eru þeir að gera alla skapaða hluti,“ segir Hulda.

Að sögn Huldu áformar Orka náttúrunnar að grafa í fyrsta áfanga 50 til 115 þúsund rúmmetra upp úr lónstæði virkjunarinnar og í áföngum allt að 500 þúsund rúmmetra af efni upp úr og hækka jarðvegsstíflu um tvo og hálfan metra og hækka inntaksstíflu einnig.

„Það er eins og Skipulagsstofnun horfi fram hjá þessum stífluframkvæmdum. Þeir komast einhvern veginn upp með það að þær séu bara einhver hliðarverkun af þessari framkvæmd sem þeir ætla í. Við lítum alls ekki á þetta sem eitthvert smotterí. Þetta er bara stórmál og það krefst þess að það liggi fyrir virkjunarleyfi sem heimilar þeim að hækka þetta svona,“ segir Hulda.

Um framkvæmdina segir í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að byggja eigi varnarstíflu í lóni virkjunar svo tæma megi nyrðri hluta lónsins af vatni og í viðhaldi og endurnýjun stíflumannvirkja. Einnig í mokstri á uppsöfnuðu seti úr lóninu, flutningi og haugsetningu á efninu. Síðan verði varnarstíflan rifin.

Hulda segir það örugglega tímabært að moka gruggi upp úr lóninu og lagfæra stíflugarða.

„En núna ætla þeir að fara í svokallaðar endurbætur og þá nota þeir tækifærið og hækka stíflugarðana,“ segir Hulda bóndi á Fitjum.