Eigendur meirihluta jarðarinnar Drangavíkur á Ströndum kærðu í dag deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála (ÚUA). Landeigendurnir fara fram á að nefndin stöðvi yfirvofandi framkvæmdir á meðan málið er tekið fyrir.

Byggja á röngum landamerkjum

Í tilkynningu frá landeigendum kemur fram að VesturVerk og Árneshreppur, sem sjá um framkvæmdir á virkjuninni, hafi notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar. Þinglýst landamerkjaskrá Dalvíkur sýni fram á þetta en þar sést að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns sé alfarið innan jarðarinnar Drangavíkur.

Landamerkin sem VesturVerk og Árneshreppur studdust við.

Skráin er frá árinu 1890 en að sögn landeigenda hafa engar breytingar verið gerðar á þessum landamerkjum síðan. Nýting vatnasviðs Eyvindafjarðarár er þannig sögð vera ein meginforsenda Hvalárvirkjunar en meirihlutaeigendurnir segjast ekki hafa í huga að semja við VesturVerk um nýtingu vatnsréttinda þeirra.

Þinglýst landamerki frá árinu 1890.

Ekkert samráð

Þá segir að ekkert samráð hafi verið haft við eigendur Drangavíkur við undirbúning Hvalárvirkjunar eða skipulagsvinnu. Eigendur VesturVerks beri fulla ábyrgð á því að kanna hverjir réttir eigendur auðlindanna sem þeir vilji nýta sér séu en það hafi þeir ekki gert.

„Óskandi væri að þeir sem stýrðu áformum um Hvalárvirkjun hefðu verið með rétt landamerki á hreinu frá upphafi. Líklega hefðu virkjanaáform þá aldrei komist á skrið og forða hefði mátt togstreitu milli íbúa í Árneshreppi.”

Framkvæmdirnar gjörbreyti svæðinu

Samkvæmt áformum Hvalárvirkjunar stendur til að reisa stíflu og gera miðlunarlón þar sem Eyvindarfjarðarvatn er í landi Drangavíkur og veita því suður í Hvalárlón. Víðerni innan landamerkjanna mun þá skerðast við vegaframkvæmdir sem eru fyrsti áfangi virkjanaframkvæmdanna og Árneshreppur hefur veitt leyfi fyrir.

Hvalá á Ströndum.

Þá segja landeigendur að með framkvæmdinni í heild yrði svæðum og fyrirbærum sem lúta þeirra eignarrétt raskað enn frekar. Stíflan sem stendur til að steypa við útfall Eyvindarfjarðarvatns á að verða 19 metra há og myndi miðlunarlón hækka vatnsborðið um 16 metra.

Eyvindarfjarðarvatn nýtur sérstakrar verndar náttúruverndarlaga og er Drangavík hluti af tillögum sem Náttúrufræðistofnun Íslands setti fram árið 2018 um friðlýsingu víðernanna við Drangajökul.

Málið í höndum nefndar

Kæran er nú komin á borð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en líklegt er að ferlið taki um ár í meðferð. Því óskuðu landeigendurnir eftir að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið yrði tekið fyrir en til stóð að hefja þær sem fyrst.