Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi er afrakstur áratuga fyrirætlunar Ragnars Jónssonar, framkvæmdaaðila á Dalshöfða, um að framleiða rafmagn með því að beisla fallvatn í héraði.

„Ég hef verið með þetta mál í farvegi yfir 20 ár,“ segir Ragnar en hann er landeigandi að virkjunarsvæðinu og framkvæmdaaðili á Dalshöfða.Meirihluti sveitarstjórnar Skaftárhrepps samþykkti tillögu um skipulag virkjunarinnar í síðustu viku þrátt fyrir hörð mótmæli minnihlutans.

Tveir af fimm sveitarstjórnarfulltrúum telja óafturkræf spjöll hljótast af virkjuninni sem fyrirhugað er að verði rennslisvirkjun.Ragnar stefndi fyrst að 40 megavatta virkjun en Hnútuvirkjun verður undir 10 megavöttum sem þýðir að hún er undanþegin rammaáætlun. Hann segir að virkjunin hafi nú gengið í gegnum umhverfismat og deiliskipulag. Endapunkturinn hafi orðið með jákvæðri samþykkt sveitarstjórnar Skaftáhrepps í síðustu viku og líti hann svo á að málið sé í höfn.

„Ég get ekki breytt skoðunum fólks sem er á móti þessu,“ segir Ragnar, spurður um viðbrögð við stórum orðum sem fallið hafa.

Hann segir að eftir því sem rafmagn berist víðar inn í orkukerfið batni afhendingaröryggi. Að öðru leyti vilji hann ekki tjá sig frekar.

Minnihlutinn í Skaftárhreppi gagnrýndi í bókun að fagstofnanir hefðu ekki úrslitaáhrif í svo viðkvæmu máli heldur sveitarfélagið. Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að Lambhagafossar séu staðsettir milli inntaks virkjunar og stöðvarhúss.

„Virkjun Hverfisfljóts mun skerða rennsli fossanna í flestum mánuðum ársins,“ segir Skipulagsstofnun og nefnir fleiri neikvæð umhverfisáhrif til sögunnar.Í umsögn Náttúrufræðistofnunar segir að virkjunin valdi óafturkræfu raski á Skaftáreldahrauni sem hafi alþjóðlegt verndargildi og sé að mestu óröskuð heild.

„Náttúrufræðistofnun Íslands telur að ef að skipulagsáform þessi verða samþykkt og Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti verði að veruleika, þá muni umtalsverðum einstökum náttúruverðmætum verða raskað, að stórum hluta til á óafturkræfan hátt. Sú ákvörðun yrði einnig á skjön við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.“

Í áliti Umhverfisstofnunar segir að mosinn í Skaftáreldahrauni dragi fram form jarðmyndunarinnar og hafi að mati stofnunarinnar mikið verndargildi.Allar líkur eru á, samkvæmt fulltrúum minnihlutans í Skaftáhreppi, að samþykkt meirihluta Skaftárhrepps um virkjunina verði kærð.