Félag í eigu Gunnars Dungal hefur stefnt sveitarfélaginu Skagafirði með kröfu um að felld verði úr gildi aðalskipulagsbreyting sem heimilar lagningu háspennulínu Landsnets um lönd hans.

Umrædd háspennulína, Blöndu­lína 3, á að fara svokallaða Héraðsvatnaleið og meðal annars liggja um jarðirnar Héraðsdal I, Stapa, Laugardal og um spildur í landi Héraðsdals II, allt jarðeigna í eigu félags Gunnars Dungal, B. Pálssonar ehf.

Í stefnu Gunnars er rakið að svokölluð Héraðsvatnaleið Blöndulínu 3 liggi um lönd hans. Allt frá upphafi málsins árið 2008 hafi hann mótmælt þeirri leið sem valin hafi verið með aðalskipulagi sem sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í apríl í vor. Hann hafi bent á að svokölluð Efribyggðarleið væri heppilegri. Eins mætti leggja línuna um Kiðaskarð.

„Benti hann meðal annars á að staðhættir í Héraðsdal væru þannig að útsýni væri takmarkað frá bæjarstæðinu til annarra átta en austurs og því yrði lega línunnar mjög til spillis öllu útsýni,“ segir í stefnunni.

Gunnar segir að aðalskipulagsbreytingin, undirbúningsvinna við hana og umhverfismat sé haldið slíkum ágöllum að hana beri að ógilda í heild.

„Stefndi [Skagafjörður] getur ekki borið því fyrir sig nú að stefnandi [Gunnar] hefði átt að mótmæla fyrr eða að málið sé nú komið á það stig að erfitt sé eða kostnaðarsamt að hætta við. Stefndi fékk ítrekaðar viðvaranir og mótmæli.“ Segir í stefnunni að ekki hafi verið gert sambærilegt umhverfismat á Héraðsvatnaleið og Efrabyggðarleið annars vegar og Kiðaskarðsleið hins vegar.“ Í hinni samþykktu tillögu séu „niðurstöður sem er útilokað að séu rétt unnar miðað við það að Efribyggðarleiðin og Héraðsvatnaleið eru 100 prósent lengri en Kiðaskarðsleiðin“.

Blöndulína 3 mun liggja um mörg sveitarfélög. Í stefnu Gunnars segir að lögum samkvæmt eigi svæðisskipulag að taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, félagslegu og hagrænu tilliti. „Þetta ákvæði á augljóslega við um raflínu sem liggur um mörg sveitarfélög og hefði átt að beita því. Þetta er ágalli á skipulaginu sem leiðir til ógildingar.“

Þá segir í stefnu Gunnars að Skagafjörður hafi ekki aflað upplýsinga frá neinum öðrum en Landsneti varðandi möguleika þess að leggja jarðstreng eða sveitarfélagið greint möguleika þess sjálft. „Slíkar upplýsingar eru ekki áreiðanlegar eða hlutlausar því þær koma frá framkvæmdaraðilanum sjálfum.“

Verði aðalskipulagið ekki fellt úr gildi gerir Gunnar kröfu um að viðurkennd verði skaðabótaskylda sveitarfélagsins því breytingin leiði til þess að verðmæti eigna hans skerðist verulega.

„Verður þessi skerðing verulega umfram það sem á við um sambærilegar eignir vegna þess að aðalskipulagið gerir ráð fyrir að línan liggi í gegn um lönd stefnanda og hús eða í næsta nágrenni við þau.“

Hvað er Blöndulína 3?

Blöndulína 3 er 220 kV háspennulína sem liggja á 100 kílómetra leið frá Blönduvirkjun til Akureyrar um Skagafjörð, Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadal. Er henni ætlað að styrkja flutningsleiðir raforku á Norðurlandi. Línan á að liggja um Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgárbyggð og Akureyrarkaupstað.„Vegna breyttra áherslna er nýtt umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Blöndulínu 3 að hefjast og mun það leysa eldra umhverfismat af hólmi,“ sagði í tilkynningu á vef Landsnets 7. nóvember síðastliðinn.