Bjarni Pálsson, eigandi jarðarinnar Brautarholts á Kjalarnesi, mótmælir því harðlega að gert sé ráð fyrir því að vegur að fyrirhuguðu hóteli og heilsulind í Nesvík liggi í gegnum land hans.

Í bréfi Ólafs Hvanndals Ólafssonar, lögmanns Bjarna, til Reykjavíkurborgar segir að vegurinn eigi að liggja um land Bjarna á um eins kílómetra kafla. Hann mótmæli því harðlega að lögð sé fram tillaga að slíku deiliskipulagi án nokkurs samráðs eða heimildar frá honum.

„Að mati umbjóðanda míns brestur Reykjavíkurborg heimild til þess að gera í deiliskipulagi ráð fyrir slíkum vegi innan einkalands hans án samþykkis hans“, segir í bréfi lögmannsins. Finna þurfi nýtt vegstæði.

Rakið er að á sínum tíma hafi eigendur Brautarholts samþykkt umferðarrétt að tveimur húsum sem voru byggð á landi sem starfsmannafélag Loftleiða eignaðist árið 1967. Þessa heimild geti eigandi Nesvíkur hins vegar ekki nýtt vegna hótelsins.

Gjörbreyting á umferð

„Eitt er að heimila umferð fyrir tvo lítt sótta bústaði, eins og gert hefur verið í meira en fimmtíu ár, en annað að heimila umferð sem kemur til vegna uppbyggingar og starfsemi allt að eitt hundrað herbergja hótels auk heilsulindar og veitingastaðar,“ segir lögmaður Bjarna. „Slík gjörbreyting á umferð í gegnum land umbjóðanda míns mun bersýnilega fela í sér verulega skerðingu á nýtingarmöguleikum landsins og jafnframt hafa í för með sér umtalsvert ónæði og rask á svæði þar sem jafnan ríkir mikil kyrrð.“

Þá gerir lögmaðurinn athugasemd við að áðurnefnd tólf gistihús eigi að vera við mörk Nesvíkur og Brautarholts. „Slíkt mun óhjákvæmilega valda umbjóðanda mínum miklum óþægindum og rýra aukin heldur nýtingu hans á lóð sinni.“

Íbúaráð fagnar uppbyggingunni

Er málið var tekið fyrir á fundi skipulagsfulltrúa síðastliðinn föstudag var, auk mótmæla lögmanns Bjarna, lögð fram umsögn íbúaráðs Kjalarness, sem kveðst fagna atvinnuuppbyggingu af slíku tagi. Á fundinum var ákveðið að vísa málinu til umsagnar verkefnisstjóra hjá borginni.