Ákvörðunin um að aflífa alla minka í Danmörku, án þess að hafa lagalega heimild fyrir því hefur kostað Mogens Jensen ráðherraembættið. Hann tilkynnti þetta í viðtali við danska ríkisútvarpið DR í gær.

„Ég hef ákveðið að segja mig úr ríkisstjórninni, ég hef ekki lengur nauðsynlegan stuðning meðal þingflokkanna og get því ekki haldið áfram að gegna starfi landbúnaðarráðherra."

Þann 4. nóvember síðastliðinn, tilkynnti Mette Frederik­sen, forsætisráðherra Danmerkur að allir minkar á öllum búum lands­ins yrðu drepnir. Þetta yrði gert til þess að koma í veg fyrir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar sem greindist á Norður-Jótlandi, í minkum og mönnum, myndi dreifa sér frekar. Viku síðar kom í ljós að yfirvöld höfðu ekki lagalega heimild fyrir því að krefjast þess að allir minkar yrðu aflífaðir. Krafa yfirvalda var því ólögleg.

Mogens Jensen sagðist í fyrstu ekki vita að krafan væri ólögleg. Síðar kom í ljós að hann hafi fengið upplýsingar um að yfirvöld hefðu ekki heimild til þess en ákveðið að sitja á þeim upplýsingum. Mikið fjaðrafok myndaðist í dönsku ríkisstjórninni í kjölfarið en flokkar ríkisstjórnarinnar tilkynntu forsætisráðherra að þeir treystu honum ekki lengur sem ráðherra og vildu að hann segði af sér.

„Það er alveg ljóst að mistök voru gerð í mínu ráðuneyti, ég tek ábyrgð á því. Ég er búinn að biðjast afsökunar og geri það aftur, sérstaklega bið ég minkaræktendur afsökunar sem eru í erfiðum aðstæðum."

Eftir ákvörðun gærdagsins er hann fyrsti ráðherrann sem lætur af störfum í embættinu í ríkisstjórn Mette Frederiksen. Hann mun þó áfram sitja á þingi fyrir Sósíaldemókrata.