Veðurstofa Íslands telur að kvikusöfnun sé hafin á ný á miklu dýpi við eldstöðina við Fagradalsfjall, þar sem eldgos hefur staðið yfir með pásum síðan í mars.

Ekkert hefur sést í hraunflæði frá gígnum í Geldingadölum frá 18. september en enn mælist gas í litlu magni. Þegar eldgosið hófst í mars seig land umhverfis eldstöðvarnar, líklega vegna kviku sem streymdi úr kvikugeymi samkvæmt Veðurstofunni en nú rís land á ný.

Hraunflæði í Nátthaga frá því í maí.
Fréttablaðið/Anton Brink

Veðurstofan tekur fram að landrisið þurfi ekki að vera vísbending um að kvika leiti til yfirborðs á næstunni og vel hugsanlegt að um sé að ræða atburðarás sem taki ár eða áratugi, en erfitt er að spá fyrir um framvindu á þessu stigi.

„Lítið hægt að segja til um hvort kvika komi aftur upp á yfirborðið. Þetta er á miklu dýpi og gæti gerst eftir ár, áratugi eða ekkert yfir höfuð, “ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, jarðvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Landris hófst í september

Í lok ágúst fór að draga úr siginu og upp úr miðjum september var sigið farið að snúast landrís samkvæmt GPS mælum. Risið er mjög lítið eða einungis um tveir sentimetrar þar sem það er mest. Nýjustu gervitunglagögn sýna að landrisið nær norður af Keili suður fyrir gosstöðvarnar og líkanreikningar benda til þess að upptök þess séu á miklu dýpi og er líklegasta skýringin talin vera kvikusöfnun.

Veðurstofan telur að jarðskjálftahrinan í september hafi tengst landrisinu.

GPS mælingar við Fagradalsfjall: Landris í tímaröð frá byrjun mars
Mynd: Veðurstofa Íslands