Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins voru farþegar rútunnar sem valt skammt frá Blönduósi í dag læknanemar í Háskóla Íslands. Hjúkrunar- og læknanemar voru á leið í samfloti til Akureyrar í skíðaferð í tveimur rútum.

Rúta með hjúkrunarnema um borð keyrði á undan en mikill vindur og hálka var á veginum þar sem slysið varð. Þegar rútubílstjóri rútunnar sem keyrði á undan varð var við að engin ljós sáust í baksýnisspeglinum ákváðu hjúkrunarnemarnir að fara út og kanna aðstæður. Varð þá ljóst að rútan sem hafði læknanemana um borð hafði oltið út af veginum og hafnað á hvolfi. Rúður voru brotnar og blóðugt á vettvangi.

„Það var mikið lán í óláni að hjúkrunarfæðinemar sem hafa unnið á bráðamóttöku voru fyrstir á vettvang,“ segir María Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðinemi við HÍ, sem var í annarri rútunni, í samtali við Fréttablaðið.

Alls voru 49 manns ásamt rútubílstjóra í rútunni sem valt og voru þrír fluttir með alvarlega áverka, meðal annars beinbrot, með þyrlu landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík. Annar var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi með sjúkrabíl.

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að búið sé að útskrifa alla nema einn sem fóru á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.

„Þeir sem þurftu skoðun fóru á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi. Einn er eftir þar og nýtur væntanlega aðhlynningar í nótt. Allir aðrir eru útskrifaðir eftir skoðun og fóru þá á fjöldahjálparstöð,“ segir Rögnvaldur. „Svo kom starfsfólk okkar að kíkja á alla.“

Áfallahjálparteymi var einnig ræst út. „Á þessu stigi snýst áfallahjálpin um fræðslu. Hvernig svona hlutir lýsa sér og hvaða tilfinningar geta komið upp. Venjan er svo að veita áfallahjálp einhverjum dögum seinna.“

Um sé að ræða háorkuslys þegar fólk er í miklu áfalli eftir á.

Gista á Blönduósi í nótt

Upphaflega stóð til að fara til Reykjavíkur í kvöld en sennilega munu nemarnir gista í grunnskólanum á Blönduósi og leggja af stað í bæinn í fyrramálið.

„Okkar plan er að fara með þau í bæinn í kvöld. Búið er að lýsa yfir vilja til að fara í bæinn og það er lang einfaldast að fara heim í kvöld. Nú er veður og færð og gluggi til að fara heim. Það verður leiðinlegt veður á morgun þannig að það er gott að gera það núna,“ sagði Rögnvaldur þegar Fréttablaðið ræddi við hann.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru allir farþegar í bílbeltum en nemarnir höfðu keyrt fram hjá slysstað við Kjalarnes fyrr í dag þar sem alvarlegt umferðarslys varð þegar gámur losnaði frá tengivagni og hafnaði á bíl þannig að tveir slösuðust alvarlega. Nemarnir tóku því enga áhættu. En vegna slyssins við Kjalarnes urðu talsverðar tafir á ferð háskólanemanna sem höfðu ætlað sér að forðast veðrið.