Hólms­ár­lón er með fal­legri stöðu­vötnum á Ís­landi og er það skammt suð­austan Torfa­jökuls. Það er einkum blá­grænn liturinn sem fangar at­hyglina á þessu í­langa jökul­lóni, sem einnig er heillandi and­stæða við rauð­leitt gjallið og mosa­vaxin fjöllin í kring.

Hólms­ár­lón hefur þá sér­stöðu að vera ó­snortin smíð náttúrunnar, ó­líkt mann­gerðum lónum eins og t.d. Blöndu­lóni og Háls­lóni við Kára­hnjúka sem hafa orðið til við upp­byggingu vatns­afls­virkjana. Í saman­burði við þau er Hólms­ár­lón lítið, eða 4,1 fer­kíló­metri. Það felur sig skemmti­lega á milli fjalla og því verður að ganga að vatninu til að sjá fegurðina. Lónið er því hulinn gim­steinn sem fæstir vita af og enn færri hafa heim­sótt. Orku­fyrir­tæki litu hýru auga til Hólms­ár­lóns í byrjun þessarar aldar og vildu reisa stíflu við suður­enda þess. Þannig átti að stækka vatnið og nýta sem uppi­stöðu­lón fyrir vatns­afls­virkjun.

Ekkert varð af þeim á­formum, enda hefði virkjun á ein­stakri náttúru­perlu sem þessari verið stór­slys líkt og hug­myndin að veita jökul­vatni úr Skaft­á í Langa­sjó og nýta það fagur­bláa og heims­þekkta vatn sem uppi­stöðu­lón. Enn renna menn þó hýru auga til virkjunar í neðan­verðri Hólms­á en þar eru tveir sér­lega fal­legir fossar, Hólms­ár­foss og Axlar­foss, í afar sér­stöku um­hverfi sem myndi raskast við slíka fram­kvæmd.

Það er hægt að ganga að Hólms­ár­lóni úr nokkrum áttum. Ein leið liggur vestan úr Strúts­skála og er þá gengið fram hjá fjallinu Strút og á­fram inn að Strútslaug við norður­enda Hólms­ár­lóns þar sem sést vel yfir lónið. Þetta er á­gætis dags­ganga með lítilli hækkun og til­valið að skola af sér ferða­rykið í heitri lauginni. Fyrir þá sem vilja lengri göngu má leggja upp frá Land­manna­laugum og ganga þaðan í Jökul­gil og upp í gegnum magnaða Muggu­dali að Strútslaug. Þar má slá upp tjaldi við snotran foss og ganga síðan með fram Hólms­ár­lóni daginn eftir, eða í kringum það en þá verður að vaða Hólms­á sem getur verið vatns­mikil. Flestir ganga þó að Hólms­ár­lóni af Fjalla­baks­leið syðri, austan megin Hólms­ár. Haldið er upp með ánni sem er fjöl­mörgum fossum prýdd.

Skammt frá út­rennsli Hólms­ár úr Hólms­ár­lóni er helsta náttúru­perla svæðisins, Rauði­botn, sem er á stærð við í­þrótta­leik­vang og hluti af Eld­gjá. Hefði Hólms­ár­lón verið stíflað fyrir kíló­vatt­stundir væri um­hverfi Rauða­botns með fossa­röðunum eyði­lagt. Í staðinn verður þetta svæði upp­spretta ó­teljandi unaðs­stunda komandi kyn­slóða. Stundum getur ólán orðið að láni – það sannast í Hólms­ár­lóni.

Horft suður að Hólmsárlóni rétt ofan við Strútslaug. Til hægri sést í fjallið Strút.
Fossinn við útfall Hólmsárlóns er af dýrari gerðinni og liturinn á vatninu blágrænn.