Franska lög­reglan hefur hafið rann­sókn á líkams­á­rás sem beindist gegn 22 ára konu í borginni Stras­bourg. Konan, Elisa­beth, varð fyrir á­reiti þriggja manna sem endaði með því að hún var slegin í and­litið.

Elisa­beth segir að mennirnir hafi gert at­huga­semdir við klæða­burð hennar og þá stað­reynd að hún var í pilsi. BBC fjallar um þetta.

Ný lög tóku gildi í Frakk­landi árið 2018 en með þeim varð heimilt að sekta þá sem gerast sekir um á­reitni á götum úti. Ekki leið langur tími þar til fyrsta sektin leit dagsins ljós en í því til­viki hafði karl­maður slegið á rass konu og við­haft um hana klúr um­mæli á al­manna­færi.

Frá því lögin voru sam­þykkt hafa alls 1.800 ein­staklingar verið sektaðir.

Í frétt BBC, sem vísar í frétt France Bleu Al­sace, kemur fram að Elisa­beth hafi verið úti á götu þegar mennirnir veittu henni at­hygli. Einn þeirra hafi kallað hana „hóru“ og gert at­huga­semdir við klæða­burðinn. Skömmu síðar hafi tveir mannanna haldið henni meðan að sá þriðji veitti henni hnefa­högg í and­litið. Konan fékk glóðar­auga en mennirnir hurfu á braut. Elisa­beth segir einnig að margir hafi séð at­vikið en enginn brugðist við.

Mar­lene Schiappa, að­stoðar innan­ríkis­ráð­herra Frakk­lands og fyrr­verandi jafn­réttis­mála­ráð­herra, heim­sótti austur­hluta Stras­bourg, þar sem á­rásin átti sér stað, á mið­viku­dag. Hún sagði að á­rásir sem þessar yrðu ekki liðnar og hvatti hún fólk til að hafa sam­band við lög­reglu ef það yrði vitni að at­vikum sem þessum.