„Það er stutt í náttúruna hérna allt í kringum okkur,“ segir Sigrún Þórsteinsdóttir, leikskólastjóri við Leikskólann í Stykkishólmi.

„Þetta er ekki stór bær og flest börnin þekkja einhvern sem á kindur. Þetta er svona bær í sveit og þetta er stutt frá,“ segir hún.

„Það sem við höfum verið að þróa síðustu ár er útikennsla og það er einn kennari sem er búinn að sérhæfa sig í því,“ segir Sigrún um starf leikskólans. „Hann fer fjóra daga vikunnar með hóp og labbar upp í, ekki kennslustofu heldur skógræktina okkar og nýræktina.“

Fréttablaðið/Aðsend

Sigrún segir að þar séu börnin í hreyfingu sem styrki þau og stuðli að sköpun og öryggi, frumkvæði og kjarki. „Þau eru svolítið að reyna á sig og sjá hvað þau geta,“ segir hún.

„Svo nýtum við mikið þetta umhverfi hér í kringum okkur. Við fluttum í nýtt húsnæði árið 2007 en fram að því vorum við niðri við höfn í gömlu húsnæði sem Sankti Fransiskusystur áttu. Þá vorum við í meiri tengslum við höfnina og sjómennina,“ segir Sigrún.

Sigrún og lambið Gimba
Fréttablaðið/Aðsend

Sem stendur er að sögn Sigrúnar einn starfsmaður á leikskólanum sem einnig er bóndi.

„Hún og maðurinn hennar eru með svolítið mikið af kindum, hænum og gæsum. Þegar kemur heimalningur fáum við hann gjarnan í heimsókn og nú kom Gimba,“ segir Sigrún og bætir því við að börnunum finnist þetta æðislegt.

„Svo voru börnin úti á pallinum að sofa og ég veit ekki alveg hvað Gimba ætlaði að gera,“ segir Sigrún og hlær, og vísar til þess að Gimba hafi reynt að koma sér þægilega fyrir í barnavagni, eins og myndirnar sýna.

„En það er svo mikils virði að hafa þessi tengsl. Þetta muna börnin og þau hafa gott af þessu – eins og allir – að umgangast dýr,“ segir Sigrún Þórsteinsdóttir.