Maður sem lamaðist í mótor­hjóla­slysi árið 2017 getur gengið aftur eftir að læknar græddu raf­skaut í mænu hans til að virkja vöðva hans til gangs sem hluta af nýrri vísinda­rann­sókn.

Maðurinn, sem heitir Michel Roc­cati, missti alla hreyfi­getu og til­finningu í fótum sínum eftir að mæna hans rofnaði í sundur en getur nú staðið og gengið með hjálp raf­tækis sem grætt var í mænu hans og er stýrt með spjald­tölvu.

Greint var frá niður­stöðum rann­sóknarinnar í vísinda­ritinu Nature en að sögn rann­sak­enda hefur hin nýja tækni hjálpað alls þremur mönnum með mænu­skaða á aldrinum 29 til 41 að öðlast aftur hreyfi­getu og meðal annars gert þeim kleift að standa, ganga, hjóla og sparka fótunum í sund­laug.

Ro­catti notar nú raf­tækið í sínu dag­lega lífi og sem hluta af endur­hæfingu til að styrkja vöðva sína og halda sér í formi.

Tæknin var þróuð af Grégoire Courtine, prófessor í tauga­vísindum við EPFL há­skólann í Lausanne í Sviss og Jocelyne Bloch, prófessor í heila­skurð­lækningum við há­skóla­sjúkra­húsið í sömu borg. Um er að ræða mjúk og sveigjan­leg raf­skaut sem eru lögð yfir taugar mænunnar undir hryggjar­liði.

Raf­skautin senda svo raf­boð til tauganna sem stjórna vöðvum í fótum og búk. Hægt er að stjórna um­ræddum raf­boðum með for­riti í spjald­tölvu sem gefur út mis­munandi skipanir fyrir mis­munandi hreyfingar á borð við það að standa, ganga, hjóla eða synda.

Tæknin hjálpaði öllum þremur sjúk­lingunum að standa að­eins nokkrum klukku­tímum eftir að­gerð og þótt hún hafi ekki verið full­komin í byrjun jókst hreyfi­geta mannanna með aukinni þjálfun.

„Þökk sé þessari tækni höfum við getað nálgast ein­stak­linga með al­var­legan mænu­skaða. Með því að stjórna þessum í­græðslum getum við virkjað mænuna eins og heilinn mundi vana­lega gera og gert sjúk­lingunum kleift að standa, ganga, synda eða hjóla,“ segir prófessor Courtine í sam­tali við The Guar­dian.