Myndband sem sýnir augnablikið þegar 36 ára karlmaður, Randy Cox, lamaðist í haldi lögreglu hefur verið birt opinberlega af lögreglunni í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum.
Laganna verðir handtóku Randy vegna vopnalagabrots þann 19. júní síðastliðinn og komu honum fyrir í lögreglubíl sem hentar illa fyrir flutning fanga, ekki síst í ljósi þess að ekkert öryggisbelti var fyrir Cox.
Lögreglumaður sem var undir stýri bremsaði mjög snögglega þegar bifreið var ekið í veg fyrir lögreglubílinn. Þar sem Cox var ekki í öryggisbelti og með hendur skorðaðar fyrir aftan bak gat hann enga björg sér veitt þegar hann kastaðist til í bílnum með þeim afleiðingum að hann fór með höfuðið í afturhlera bifreiðarinnar.
Í frétt Washington Post kemur fram að þrjár mínútur hafi liðið uns lögreglumaðurinn stöðvaði bifreiðina en þá hafði Cox kallað ítrekað eftir aðstoð.
Á myndbandinu má sjá þegar lögreglumenn komu að Randy þar sem hann lá hreyfingarlaus á gólfi bifreiðarinnar og tilkynnti þeim að hann gæti ekki hreyft sig og væri sennilega lamaður.
Lögregla virðist ekki hafa trúað frásögn Randys því hann var dreginn út úr bifreiðinni og komið fyrir inn á lögreglustöð þar sem gert var grín að líkamsstöðu hans. Það var svo um 10 til 15 mínútum síðar að sjúkraflutningamenn komu á staðinn og færðu Randy undir læknishendur.
Randy lamaðist fyrir neðan brjóst í slysinu og segir lögmaður hans, Ben Crump, að hann muni sennilega ekki ganga aftur.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og hafa fimm lögreglumenn verið sendir í leyfi meðan það er til skoðunar.
Lögmaður Randys birti myndband af atvikinu á Twitter-síðu sinni og má sjá færslu hans og myndbandið hér að neðan. Vakin er athygli á því að það getur vakið óhug.
This video is HORRIFIC! Randy Cox was put in a police van without seatbelts and, after an abrupt stop, was thrown into the wall HEAD FIRST. We literally witness his neck break! As he was STILL lying on the van floor, he told the officers that he couldn’t move. What did they do? pic.twitter.com/L9izx7vmDt
— Ben Crump (@AttorneyCrump) June 28, 2022