Carri­e Lam, æðsti stjórnandi sjálf­stjórnar­héraðsins Hong Kong, flutti stefnu­ræðu sína í dag á lög­gjafar­þingi héraðsins en þar lof­samaði hún meðal annars nýja öryggis­lög­gjöf sem hefur verið veru­lega um­deild frá því að hún var kynnt. Engir lýð­ræðis­sinnaðir and­stæðingar Lam voru við­staddir við á­varp Lam en margir þeirra höfðu sagt af sér vegna aðgerða stjórnvalda.

Í ræðu sinni kom hún stjórn­völdum í Hong Kong og Kína til varnar þar sem þau hafa verið sökuð um að fara í her­ferð gegn lýð­ræðis­sinnum í héraðinu. Þess í stað kenndi hún far­aldri CO­VID-19 og af­skipti annarra ríkja um erfið­leika héraðsins. Hún sagði að síðast­liðið ár hafi verið það erfiðasta á pólitískum vett­vangi í Hong Kong frá því á tíunda ára­tugnum.

Fjölmenn mótmæli

Kín­versk yfir­völd sam­þykktu lögin í lok júní síðast­liðinn júní en fjöl­margir hafa mót­mælt lögunum þar sem talið er að þau muni skerða réttindi og frelsi íbúa tölu­vert. Alls hafa rúm­lega 10 þúsund manns verið hand­teknir í mót­mælunum, þar af að minnsta kosti 31 undir nýju lögunum, að því er kemur fram í frétt Guar­dian.

Nýju lögin fela í sér bann við and­ófi og niður­rifs­starf­semi í garð kín­verskra stjórn­valda en fjöl­mörg ríki heimsins gagn­rýndu lög­gjöfina og töldu að hún kæmi til með að hafa á­hrif á sjálfs­stjórn Hong Kong. Yfir­völd í Hong Kong hafa þó þver­tekið fyrir það og full­yrti Lam síðast­liðinn maí að lögin kæmu ekki til með að skerða réttindi og frelsi íbúa eða hafa á­hrif á sjálf­stjórn Hong Kong.

Krefjast lýðræðis

Mót­mælin í Hong Kong hófust þó ekki með öryggis­lögunum heldur hófust þau í kjölfar fram­sals­frum­varps sem Lam lagði fram árið 2019 en hún dró frum­varpið til baka fyrir rúmu ári síðan eftir að fjöl­menn mót­mæli brutust út. Óháð mót­mælunum í kringum frum­varpið á þeim tíma og öryggis­laganna nú krefjast mót­mælendur þess í stað lýð­ræðis fyrir Hong Kong.