Nýtt lagafrumvarp um sviðslistir var lagt fram á Alþingi í dag. Þar er meðal annars kveðið á um að Þjóðleikhússtjóri megi ekki starfa lengur en fimm ár í senn og megi einungis endurnýja skipun stjórans einu sinni.

„Með frumvarpinu er lagt til að eingöngu sé heimilt að endurnýja skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni en það hefur verið ósk listageirans að forstöðumenn listastofnana sitji að öllu jöfnu ekki lengur en tvö skipunartímabil,“ segir í greinagerð frumvarpsins sem má nálgast hér.

Sú breyting er gerð til að stuðla að framþróun listageirans að því er fram kemur í frumvarpinu.

Stjórn Félags íslenskra leikara (FÍL) sendi bréf til Þjóðleikhúsráðs og til ráðherra menningarmála síðastliðinn maí þar sem kvartað var yfir aðgerðaleysi ráðherrans og ráðsins vegna athugasemda sem borist hafa vegna hegðunar Ara Matthíassonar þjóðleikhússtjóra.

Kvartanirnar eru mis­alvarlegar en lúta meðal annars að samningsbrotum, hegðun og erfiðum samskiptum og spanna nokkurra ára tímabil.

Fréttablaðið ræddi við fagfólk í stétt listamanna sem bar saman um að erfið staða væri komin upp í Þjóðleikhúsinu. Skipun Ara rennur út 1. janúar 2020 og samkvæmt lögum skal ætíð auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.

Alls sóttu sjö um stöðu Þjóðleikhússtjóra en umsóknarfrestur rann út þann 1. júlí og verður nýr Þjóðleikhússtjóri skipaður fyrir 1. janúar.

Ráðuneytinu bárust sjö umsóknir um stöðuna, frá fjórum konum og þremur körlum. Umsækjendur eru:

Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari og leikstjóri

Guðbjörg Gústafsdóttir

Kolbrún K. Halldórsdóttir, leikstjóri

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri

Stefán Sturla Sigurjónsson, verkefnastjóri, leikari og rithöfundur