Lög­reglan hefur lagt hald á fjölmarga muni í hús­leitum sínum í tengslum við morðið í Rauða­gerði eins og skot­vopn og nokkur öku­tæki, meðal annars Range Rover í eigu Ís­lendingsins. Þetta kemur fram í fréttRÚV.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur fram­kvæmt hús­leitir á nærri tuttugu stöðum, á heimilum, í sumar­húsum og fleiri stöðum á Norður­landi, Suður­landi og á höfuð­borgar­svæðinu vegna rann­sóknar á morði í Rauða­gerði.

Þar á meðal var leitað í hús­grunni ný­byggingar á Arnar­nesi í Garða­bæ. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins

Átta sitja í gæslu­varð­haldi vegna morðsins á Armando sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í síðustu viku. Sam­kvæmt RÚV var Armando skotinn marg­sinnis meðal annars í hnakkann með skambyssu sem var að öllum líkindum með hljóð­deyfi.

Þau átta sem eru í haldi koma frá Albaníu, Litháen, Ís­landi, Eist­landi, Rúmeníu, Portúgal og Spáni. Sumir eru bú­settir hér á landi og aðrir ekki.

Yfir­heyrslur hafa staðið fyrir í gær og í dag og halda á­fram um helgina að sögn lög­reglu. Lög­reglan er enn að kort­leggja hlut­deild þeirra að morðinu en telur sig vita hver morðinginn er.