Hallgerður Hauksdóttir formaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) segir í samtali við Fréttablaðið að aflífun hænu sem fjallað var um í fréttum í gær hafi augljóslega af myndskeiði að dæma ekki verið eftir reglugerð. Hún segir málið þó erfitt og að hér togist á tvö sjónarmið. Að aflífun hafi ekki verið samkvæmt reglugerð en að hún hafi samt sem áður verið skjót og afdráttarlaus og því líklegt að dýrið hafi ekki þjáðst óþarflega.

„Það eru nokkrir fletir á þessu myndbandi. Það er aflífunin út frá dýrinu, hvort þetta hafi verið þjáningarfullt fyrir dýrið, það er ein spurning. Var rétt staðið að aflífun samkvæmt reglugerð, það er önnur spurning. Þriðja spurningin varðar það hvort reglugerðir séu nægilega vel útfærðar til að tryggja lágmarks velferð,“ segir Hallgerður í samtali við Fréttablaðið í dag.

Lágmarksviðmið – ekki viðmið um það hvað er best

Hún segir að það fyrsta sem þurfi ávallt að taka til greina sé að slíkar reglugerðir séu ekki viðmið um hvað sé best fyrir dýrin, heldur eru þær ávallt lágmarks viðmið hvað varðar velferð dýranna.

„Þetta á við allar reglugerðir um velferð. Fólki hættir stundum til að líta svo á að þarna sé verið að setja fram eitthvað sem er gott fyrir dýrin, en þetta er í raun og veru lágmarks viðmið og við getum alltaf gert betur,“ segir Hallgerður.

Ljóst að hænan var með meðvitund

Hún segir að hún hafi horft á myndbandið og fundið ljóst af hreyfingum hænunnar, þegar hún er undirbúin fyrir höggið, að hún hafi verið með meðvitund og því hafi maðurinn klárlega verið að brjóta á reglugerðinni.

„Ég skoðaði myndbandið hægt og mér finnst ljóst af þeirri hreyfingu sem ég sé hjá hænunni þegar hún er undirbúin fyrir höggið, að hún hreyfi höfuðið eins og fugl sem er að leita eftir jafnvægi. Þannig mér finnst ljóst að hænan er með meðvitund. Þar er því ekki farið eftir reglugerð,“ segir Hallgerður.

Hún útskýrir að það á að rota fugla áður en þeir eru aflífaðir og segir það yfirleitt gert með raflosti eða sérstöku priki eða kylfu eða barefli.

„Það er krafa um deyfingu fyrir aflífun. Rotun er ekki aflífun. Hún á sér stað með blóðtæmingu og fuglinn á að vera meðvitundarlaus við tæmingu. Þetta er viðmið sem er sett heilt yfir því það er fuglunum fyrir bestu að vera ekki með meðvitund þegar þeir er drepnir,“ segir Hallgerður.

Hún bendir þó á að það sé alls ekki einhlítt á Íslandi með sársaukalausa aflífun. Leyfilegt er til dæmis að aflífa grísi þar til þeir eru sjö daga gamlir með því að slá þeim utan í vegg, eftir þann tíma er það ekki leyfilegt. 

„Grísir eru löglega aflífaðir með því að slá þeim utan í vegg þangað til þeir eru sjö daga gamlir. Minkar eru löglega aflífaðir með því að drekkja þeim.“

Hún segir að slíkar aðgerðir séu þó alltaf ógeðfelldar, sama þótt dýrið sé meðvitundarlaust. „Afhöfðun er alltaf ógeðfelld. Einnig þegar að dýrið er ekki með meðvitund. Hún er alltaf ógeðfelld fyrir þann sem horfir á.“

Myndskeiðið má sjá hér að neðan. Viðkvæmir eru varaðir við innihaldi myndskeiðsins. 

Aflífun skjót og afdráttarlaus

Hallgerður segir að það megi draga þær ályktanir af myndskeiðinu að þrátt fyrir að ekki hafi verið farið eftir reglugerð, þá þurfi ekki að vera að hænan hafi þjáðst, því aflífun mannsins sé einkar skjót og afdráttarlaus.

„Einkunnarorð félagsins eru tillitsemi, virðing og ábyrgð. Það er sú krafa sem við gerum og ef við skoðum þetta myndband í því ljósi þá er spurning um hugarfar mannsins sem segir „Hausinn af“ og hvort hann hafi verið að bera nægilega virðingu fyrir því verki sem hann var að vinna. En hitt er annað mál að hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera og hann gerir það gagnvart henni þannig að hún finnur ekki fyrr því,“ segir Hallgerður.

Lágmarksvirðing að hrópa ekki eftir aflífun „Hausinn af“

Þrátt fyrir það segir Hallgerður að hún geti ekki samþykkt að aflífunin sé í lagi með þessum hætti.

„Ég get ekki sagt að þetta sé í lagi, því hann er klárlega að brjóta á lágmarksviðmiðum um velferð. En ég get heldur ekki sagt að þetta hafi verið slæm aflífun út frá dýrinu séð, það er að dýrið hafi þjáðst. En þessi maður á auðvitað að fara eftir þeim lágmarksmiðmiðum sem eru sett um velferð dýra og aflífa þau við aðstæður sem krafist er. En jafnframt finnst mér að sá sem aflífi dýrið eigi að sýna því virðingu og ábyrgð við verknaðinn. Lágmarksvirðing væri kannski að hrópa ekki eftir aflífun „Hausinn af“,“ segir Hallgerður að lokum.

MAST rannsakar atvikið

Matvælastofnun, MAST, rannsakar nú formlega myndskeið af aflífun hænunnar og hvort hafi verið um að ræða ómannúðlega aflífun dýrsins.

Brigitte Brugger dýralæknir alifuglasjúkdóma sem starfar hjá Matvælastofnun sagði í gær í samtali við Fréttablaðið að erfitt væri að meta út frá myndskeiðinu hvort væri um að ræða ómannúðlega meðferð á dýrinu. 

En í dag, eftir að hafa horft á myndskeiðið nánar og fengið fleiri ábendingar, hafa sérfræðingar MAST komist að því að meiri líkur séu á því að hænan sé afhausuð með því að skella henni ofan á bárujárn. Það er óheimilt samkvæmt reglugerð því ekki má afhausa hænur á meðan þær eru með meðvitund.

Myndskeiðið olli miklum usla í Facebook-hópnum Vegan Ísland í gær þar sem fólk velti því fyrir sér hvort um væri að ræða dýraníð.

Sjá einnig: Ekki ljóst hvort aflífun hænu sé ómannúðleg