Kolefnisspor vegna mataræðis Íslendinga er hærra en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Þórhalls Inga Halldórssonar, prófessors við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Þórhallur segir að í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu leiði mataræði hjá meðaleinstaklingi til losunar á um það bil 5 kílógrömmum koltvísýrings-ígilda á dag. Tölur sýni að losun meðaleinstaklinga hér á landi sé 30 prósentum meiri, eða í kringum 6,5 koltvísýringsígildi á dag.

„Hærri losun okkar skýrist að stærstum hluta af mikilli neyslu dýraafurða hjá ákveðnum hópi hérna á Íslandi,“ segir Þórhallur og bætir við að mikil neysla dýra­afurða, sér í lagi rauðs kjöts, vegi þyngst í kolefnisspori einstaklinga. Hún útskýri um það bil 50 prósent af allri losun að meðaltali.

Spurður hvað sé best að borða til að kolefnissporið sé sem minnst, segir Þórhallur best að borða hóflega af matvælum úr dýraríkinu og meira af afurðum úr plönturíkinu.

„Svokallað lágkolvetna mataræði kemur til dæmis oft mjög illa út umhverfislega og hluti þeirra sem fylgja því mataræði getur verið að losa allt að 15 til 20 kílógrömm koltvísýringsígilda á dag. Þetta vegur mjög þungt í landsmeðaltalinu,“ segir Þórhallur.

„Ef vinsældir þess mataræðis færu minnkandi, þá værum við sennilega á svipuðu róli og aðrar þjóðir þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda vegna mataræðis. Frekari breytingar í átt að hóflegri neyslu dýraafurða og hærra hlutfalli afurða úr plönturíkinu myndu skila okkur enn lengra í átt að sjálfbærara mataræði,“ bætir Þórhallur við.

Að sögn Þórhalls vegur matvælaframleiðsla í heiminum mjög þungt er kemur að losun gróðurhúsalofttegunda, eyðingu skóga og tapi á líffræðilegum fjölbreytileika. Þótt við séum lítil þjóð, þá spyrji gróðurhúsalofttegundir ekki um landamæri. Hver og einn geti gert sitt.

„Ef við ætlum að taka okkur á í umhverfismálum þá þarf að gera það á mörgum stöðum samtímis og sjálfsagt að benda á það að mikil neysla dýraafurða hefur hátt kolefnisfótspor. Heilsu okkar mun ekki hraka þó að við slökum aðeins á þar,“ segir Þórhallur.