Þetta verkefni er búið að gefa okkur tækifæri til að skapa hvern viðburðinn á fætur öðrum sem fyllir bæinn af gleði og brosandi andlitum,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri á Húsavík.

Lagið Husavik úr Netflix-mynd Wills Ferrel um Eurovison-keppendur frá Húsavík er sem kunnugt er tilnefnt til verðlauna á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fer í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld. Sænska söngkonan Molly Sandén, sem söng lagið í myndinni, var á Húsavík um liðna helgi þar sem tekið var upp myndband sem flutt verður á hátíðinni.

Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri á Húsavík.
Mynd/Hringbraut

Með Sandén í myndbandinu er stúlknakór frá Húsavík. Þar í bæ eru menn vongóðir. Helgi Jónsson, útsendari sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, var á staðnum.

„Lagahöfundarnir og Netflix eru búnir að segja að auðvitað komi þeir hingað með styttuna til að sýna okkur hana. Og náttúrlega þessum frábæru stelpum sem syngja á Óskarnum. Þær náttúrlega fá að sjá hana líka – og kannski halda á henni,“ sagði Örlygur í innslagi Helga í þættinum Fréttavaktinni á Hringbraut um þann möguleika að Húsavíkurlagið hreppi Óskarinn. Lagahöfundarnir fylgdust einmitt með upptökum með stúlkunum í gegn um fjarfundarbúnað og báru lof á söng þeirra.

Stelpurnar í kórnum fá kannski að handaleika Óskarsverðlaunastyttuna - ef allt fer að óskum.
Mynd/Hringbraut

Sandén lék á alls oddi

Sjálf lék söngkonan Sandén á als oddi í Húsavíkurheimsókninni. Auk þess að syngja og bregða á leik með stúlkunum úr kórnum flutti hún Húsavíkurlagið í Húsavíkurkirkju og fylgdist Hringbraut með því.

Að því er Örlygur sagði á Fréttavaktinni hafa fjórar milljónir manna séð kynningarmyndband sem gert var fyrir nokkru á Húsavík, þegar ljóst var orðið að Húsavíkurlagið ætti möguleika á tilnefningu til Óskarsverðlauna. Örlygur sagði lagið hafa verið sýnt í morgunþættinum vinsæla Good Morning America og vakið mikla athygli í Bandaríkjunum.

„Þetta var mikil lukka fyrir okkur,“ sagði Örlygur um allt ævintýrið sem enn er ekki úti. „Það er nú það sem er kannski best við þetta verkefni, að það er búið að skapa svo mikla gleði.“

Í áðurnefndu myndbandi úr þættinum Fréttavaktinni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem er hér fyrir neðan má meðal annars sjá sænsku söngkonuna Molly Sandén flytja lagið Husavik í Húsavíkurkirkju og stúlknakórinn við upptökur.