Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til Landspítalans að taka skipulag og starfsemi þriggja deilda á Kleppi til skoðunar eftir nýlega skýrslu um ákvarðarnir sem þar eru teknar gagnvart frelsissviptum einstaklingum. Vísbendingar eru um að stjórnarskrárréttindi fólks hafi verið skert þar sem engar fullnægjandi lagaheimildir eru til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum.
Um er að ræða fyrstu skýrslu umboðsmanns Alþingis á grundvelli OPCAT-eftirlits, þar sem farið var á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans á Kleppi, réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og á sérhæfða endurhæfingargeðdeild þar sem einstaklingar hafa verið vistaðir án samþykkis.
Fái ekki heimild til að taka ákvarðanir þó einstaklingur sé frelsissviptur
Fram kemur í skýrslunni að fullnægjandi lagaheimildir séu ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms veiti það starfsfólki geðheilbrigðisstofnana ekki sjálfkrafa heimild til að skerða slík réttindi sjúklinga.
Þá segir að hér á landi sé engin sérstök heildstæð geðheilbrigðisslöggjöf né annar fullnægjandi lagagrundvöllur fyrir ákvörðunum sem teknar séu í tengslum við meðferð frelsissviptra einstaklinga umfram það sem falli undir læknismeðferð. Þar af leiðandi hafi ýmis atriði þarfnast meiri athugunar en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.
Tekið er fram að aðbúnaður á deildunum þremur á Kleppi sé góður. Afþreying, tómstundaaðstaða og endurhæfing sé sömuleiðis í góðu horfi sem og mönnun á deildunum.
„Á meðan ekki hefur verið bætt úr þessari stöðu er það niðurstaða umboðsmanns að beina því til Landspítalans að taka skipulag og starfsemi deildanna þriggja á Kleppi til skoðunar með framangreind atriði í huga,“ segir í skýrslunni. Að þeirri greiningu lokinni sé rétt að spítalinn upplýsi viðkomandi ráðuneyti um niðurstöður hennar og í hvaða tilvikum spítalinn telji þörf á sérstökum lagaheimildum.
Skýrsluna í heild má lesa hér.
OPCAT stendur fyrir valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (e. Optional Protocol to the Convention against Torture). Meginmarkmið OPCAT er virkt eftirlit til að hindra að pyndingar eða önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð eigi sér stað. Á grundvelli þess heimsækir umboðsmaður og starfsmenn hans staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu