Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra var brugðið þegar hún heyrði um mál albönsku konunnar sem var vísað úr landi í nótt með tveggja ára barni sínu. Áslaugu birti færslu á Facebook síðu sinni í kvöld en hún segist hafa fyrst fengið fregnir af umræddu máli í fjölmiðlum í morgun líkt og aðrir. Hún segir það nauðsynlegt að meta hvort þurfi að breyta reglum eða verklagi í ljósi málsins.

„Við viljum öll að farið sé varlega þegar um er að ræða þungaðar mæður, börn þeirra, fædd og ófædd,“ skrifar Áslaug en hún hefur óskað eftir upplýsingum um málið og fengið þau svör að almennum reglum hefði verið fylgt.

Reglu- og verklagsbreytingar til skoðunar

„Almennt er verklagið á þann veg í dag að fengin eru tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum um hvort einhver hætta sé vegna brottfarar þeirra sem um ræðir úr landi. Ef svo er er brottvísun frestað. Það hefur oft orðið raunin, til að mynda vegna þungunar kvenna í þessari erfiðu stöðu.“

Landlæknir hefur boðað að skoða skuli verklagið og fara yfir gildandi reglur með Útlendingastofnun og segist Áslaug fagna því.

„Það þarf að meta hvort í ljósi þessa máls sé þörf á að breyta reglum eða verklagi. Brýnt er að leiðbeiningar frá heilbrigðisyfirvöldum séu skýrar.“

Áslaug segist vera að leggja lokahönd á að skipa þverpólitíska þingmannanefnd um málefni útlendinga þar sem fjallað verður um framkvæmd núgildandi laga, mögulegrar lagabreytingar með mannúðarsjónarmið til grundvallar.

Til hamingju Ísland

Konan sem um ræðir er nú stödd í Vínarborg í Austurríki en samtökunum No Borders, sem greindu fyrst frá málinu á Facebook, bárust fregnir frá konunni í kvöld.

„Hún er núna búin að vera á ferðinni í 14 klst og búin að fara í þrjú flug. Eins og er er hún stödd í Vín. Hún er búin að vera vakandi í einn og hálfan sólarhring og búin að vera undir eftirliti og hótunum lögreglu síðan 18.00 í gærkvöldi. Hún er örmagna. Til hamingju Ísland, þetta barn fékk ekki að fæðast hér.“

Fjölskyldan fer síðar í flug til Albaníu. Samkvæmt konunni hefur ferðin verið löng en flugin voru þrjú talsins; Frá Íslandi til Þýskalands og þaðan til Austurríkis og síðan til Albanía með nokkurra klukkustunda bið milli hvers flugs. Fjölskyldan hefur verið á ferð síðan klukkan 5 í morgun og eru að sögn samtakanna mjög þreytt.