Það er ekki sjálfgefið að öllum líði vel í björtu og góðu veðri. Sumir þurfa tíma til að aðlagast og treysta einhverju sem virðist vera gott en er þekkt fyrir að hverfa fyrirvarlaust. Margir stressast í sólinni því þeim finnst viðbótar álag að þurfa að „nota“ góða veðrið til að gera eitthvað af viti, helst eitthvað sem tæki sig vel út á mynd á samfélagsmiðlum. Svo eru þeir sem finna til meiri einangrunar og einmanaleika þegar allir aðrir virðast svo glaðir og hamingjusamir. Þegar veðrið er gott getur bilið breikkað á milli þess hvernig maður skynjar sjálfan sig og hvernig maður ímyndar sér að aðrir hafi það. Þeir sem eru félagslega einangraðir eða búa við þröngan fjárhag finna meira fyrir takmörkunum sínum þegar þeir hugsa til allra sem sitja í hópi vina á útikaffihúsum eða eru að grilla í sumarbústöðunum sínum. Þannig getur sólin berskjaldað fólk fyrir einmanaleika og depurð sem felst betur í myrkri og kulda.

Íslensk sumur vara örskotsstund, við erum rétt farin að treysta því að veturinn sé farinn þegar hann minnir á sig aftur. Þeir sem hafa tilhneigingu til að finnast þeir vera snuðaðir geta fundið staðfestingu þess í veðrinu oft á ári. Þeir sem telja sig lukkunnar pamfíla geta líka fundið sínar staðfestingar. Hinir sem þola og sætta sig við síbreytileika náttúrunnar geta undrast og notið fjölbreytileikans. Mismunandi hitastig, birta, raki og vindhraði, allt hefur þetta áhrif á okkur lífeðlisfræðilega. En við megum ekki gleyma mismunandi merkingu sem við gefum einum og sama hlutnum. Sumir finna vellíðan þegar sólin hitar húðina, þeir finna hvernig vöðvarnir slakna, fölvinn hverfur og D-vítamínið hleðst upp. Aðrir tengja geisla sólar við öldrun, krabbamein og hlýnun jarðar. Þetta er lítið dæmi um hvernig lífsreynsla, viðhorf og persónulegar hæðir og lægðir hafa áhrif á hvernig við upplifum veðrið.