Læsingu í Barna­landi í Smára­bíó verður skipt út, allir verk­ferlar í kringum inn­ritun barna verða endur­skoðaðir, eftir­lit hert til muna og starfs­þjálfun tekin til gagn­gerrar endur­skoðunar og breytinga. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Smára­bíóien fjögurra ára barn hvarf þaðan á sunnu­dag án þess að tekið hefði verið eftir því.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá á mánu­dag hugðist faðir barnsins, Brynjar Þór Sigurðs­son, kæra málið til lög­reglu. Hann vakti sjálfur at­hygli á málinu á Face­book síðu sinni þar sem hann lýsti því hvernig dóttir sín hefði síðar fundist í Hag­kaup.

Í kjöl­farið lýstu for­svars­menn Smára­bíó því yfir að Barna­landi yrði lokað á meðan farið yrði yfir öryggis­mál. Í nýrri til­kynningu frá bíóinu segir að læsing við hlið að barna­gæslunni hafi ekki virkað sem skyldi, nú verði breytingar á og Barna­landi lokað þar til þær hafa verið keyrðar í gegn.

„Svo ó­heppi­lega vildi til að við inn­ritun á öðrum börnum í Barna­land á sama tíma urðu jafn­framt þau mann­legu mis­tök að einu barni tókst að komast óséð í burtu fram­hjá starfs­manni við inn­ritunina og í fram­haldi út fyrir gæslu­svæðið. Þessi tvö at­vik leiddu til áður­nefndrar at­burðar­rásar, en síðan nú­verandi aðilar tóku við Barna­landi árið 2019 hefur ekkert í líkingu við þetta komið upp.“

Tekin hafi verið á­kvörðun í kjöl­far hvarfs stúlkunnar að loka á meðan breytingar verða gerðar. „Læsingu verður skipt út og allir verk­ferlar í kringum inn­ritun endur­skoðaðir, allt eftir­lit á inn­ritunar­svæði hert til muna og starfs­þjálfun tekin til gagn­gerrar endur­skoðunar og breytinga. Þá verða merkingar yfir­færðar og betr­um­bættar og ferli við inn- og út­ritun breytt til að hindra að at­vik á borð við þetta geti endur­tekið sig.“