Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir, lyfjafræðingur og kraftlyftingarmaður, segir að ýmsu að huga í hnébeygjum. Hún gefur lesendum Helgarblaðsins nokkur góð ráð.

Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar maður gerir hnébeygju?

Ég mæli með að æfa sig í byrjun án stangar til að ná hreyfingunni rétt. T.d er hægt að nota kústskaft.

- Settu stöngina í u.þ.b. bringuhæð.

- Gríptu þéttingsfast utan um stöngina – misjafnt er hversu mikið bil fólki finnst best að hafa á milli handanna.

- Farðu alveg undir stöngina og settu bakið í hana - passaðu að vera fyrir miðri stöng.

- Lyftu stönginni ákveðið og taktu eitt skref aftur.

- Hafðu axlabreidd á milli fóta.-*Þrýstu hnjám út á við, alls ekki láta þau fara inn á við og láttu þau benda um það bil í sömu átt og tærnar

- Dragðu andann inn djúpt og haltu honum inni í gegnum alla hreyfinguna.

- Byrjaðu hreyfinguna í mjöðmunum. Mjaðmarliðirnir eiga að hreyfast á undan hnéliðunum.

- Beygðu þig niður (eins og þú værir að setjast í stól), að minnsta kosti þannig að mjaðma- og hnéliður séu í sömu hæð, helst neðar.

- Farðu sömu leið upp

Hvaða útbúnað er gott að hafa? Klæðnað og skó

Ekki er þörf á neinum sérstökum útbúnaði í byrjun, bara íþróttafötum og góðum skóm sem halda vel við fæturna. Síðan, þegar fólk er komið lengra og farið að lyfta meiri þyngdum, er gott að vera í sérstökum lyftingaskóm og hafa lyftingabelti.

Ráð fyrir byrjendur í lyftingum? Hvernig er best að byrja æfingar?

Ég mæli með að fólk fari til styrktarþjálfara til að vera visst um að það geri æfingarnar rétt. Ég mæli eindregið með Ingimundi Björgvinssyni styrktarþjálfara út á Nesi.